Innlent

Ragnar segir Áslaugu hafa sýnt kynveruna „sem opinberar persónur þurfa að stilla sig um að flagga“

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Ragnar Önundarson líkir myndavali Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur við IceHot1 málið í opnu bréfi sem hann birti í dag.
Ragnar Önundarson líkir myndavali Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur við IceHot1 málið í opnu bréfi sem hann birti í dag. Vísir
Ragnar Önundarson hefur skrifað opið bréf til Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur þingkonu og þar kemur fram að hann sé enn á sömu skoðun um myndina hennar. Ragnar hefur verið gagnrýndur harðlega síðustu daga eftir að hann setti út á myndaval Áslaugar á Facebook. Í bréfi sínu sem hann birti á Facebook segir Ragnar að mynd hennar á Facebook hafi minnt á IceHot1 mál Bjarna Benediktssonar, þegar kom upp að hann var skráður á síðuna Ashley Madison undir því nafni.

„Ég hef í nokkur ár haldið þeirri skoðun á lofti að þetta geti ekki lagast á meðan æðsta forysta flokksins er falin manni sem var sjálfur umsvifamikill í fjárfestingum og lántökum fyrir hrun og tengist miklum útlánatöpum. Hann er líka af fjölskyldu fjárfesta sem hefur lengi haft ítök umfram aðra í æðstu stjórn flokksins. Snemma á sínum formannsferli gekk hann í gegnum „IceHot1” málið. Það endurspeglaði alvöruleysi ungs manns með ,,silfurskeið í munni,“  sem ekki hafði þá skilið til fulls hvað felst í að vera ,,opinber persóna.” Margir settu spurningarmerki við dómgreind hans. Nú er hann eldri og reynslunni ríkari. Honum er fyrirgefið þó ekki sé víst að tjónið hafi verið bætt. Ég hef haldið mig til hlés með mín sjónarmið síðan hann varð forsætisráðherra. Hann er glæsilegur og myndugur leiðtogi og sjónarmið mín hafa ekki heldur hlotið hljómgrunn innan flokksins,“ skrifar Ragnar um Bjarna Benediktsson. Þess má geta að Ragnar bauð sig fram gegn Bjarna í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Kraganum árið 2012. Bjarni fékk þar rúmlega helming atkvæða en ragnar var ekki á meðal sjö efstu.



„Kornung forustukona“

Ragnar byrjaði upphaflega að tjá sig þegar Áslaug var í viðtali í Kastljósinu um kynferðislega áreitni og kynbundið ofbeldi innan stjórnmála. Þá skrifaði hann: 

„Þessi unga kona var í sjónvarpi í kvöld að ræða um kynferðislega áreitni við konur í stjórnmálum. Meðfylgjandi mynd hefur hún notað sem ,,prófílmynd” á FB. Sjálfsagt finnst sumum engu skipta hvernig myndir fólk í stjórnmálum notar til að kynna sig. Dæmi hver fyrir sig.“ 

Í samtali við Vísi í gær bætti hann svo við: „Myndin gaf ekki rétta mynd af henni og það sem hún stendur fyrir. Það er bara þannig.“ Hann sagði einnig að hann hefði ekki áhyggjur af ofsanum á Facebook vegna málsins.

Í bréfinu sést augljóslega að Ragnar er enn á sömu skoðun varðandi myndaval Áslaugar. 

„Varðandi prófílmyndina þína, sem ert opinber persóna og getur því ekki haft neina ,,prívatsíðu” opna öllum, þá fékk ég einhverja óþægindatilfinningu þegar hún kom fyrst fram og hef haft síðan.

Ragnar dregur dómgreind Áslaugar í vafa vegna andlitsmyndar sem hún birti á Facebook síðu sinni og segir að með henni sýni hún kynveruna.

„Þá rifjaðist ,,IceHot1” mál BB upp. Það mál er ekki sambærilegt, en með myndinni var kornung forystukona Sjstfl að sýna á sér hlið sem allir hafa, kynveruna, en sem opinberar persónur þurfa að stilla sig um að flagga. Unggæðingslegt alvöruleysi birtist á ný í æðstu forystu flokksins. Dómgreindin er til umhugsunar. Þetta er kjarni málsins. Ekki myndin, þó hún hafi afhjúpað alvöruleysið.“

Segir Áslaugu vera að vaxa í sínu hlutverki

Áslaug hefur ítrekað leiðrétt á Facebook staðhæfingar Ragnars um að hún hafi skipt um prófílmynd á Facebook eftir hans ábendinguEins og sjá má á síðu hennar hefur hún tvisvar skipt um Facebook mynd síðan þessi umrædda mynd var hennar prófílmynd. Ragnar hefur þó enn ekki áttað sig á því. 

„Það gladdi mig að þú skyldir strax skipta um mynd og setja inn mynd sem samræmist vel þinni pólitísku ímynd. Þú varst líka snögg að leiðrétta annað óhapp nýlega, það er gott. Það bendir til að þrátt fyrir ungan aldur sért þú að vaxa í þínu hlutverki. Þú brást við þannig að dómgreindin styrktist. Sveigjanleiki og skynsemi er gott veganesti.“

Í samtali við Vísir í dag staðfesti Ragnar að með „annað óhapp“ ætti hann við það þegar Áslaug Arna baðst afsökunar á að hafa í hugsunarleysi óskað eftir slóð á ólöglegt streymi af bardaga Conors McGregor og Floyds Mayweather. Þótti honum Áslaug leysa það mál fljótt og vel. 

Sjá einnig: Áslaug Arna biðst afsökunar: „Ég veit betur“

Hér fyrir neðan má lesa bréf Ragnars í heild sinni:



Bréf til Áslaugar Örnu, ritara Sjálfstæðisflokksins:

Ég hef oft áður sagst sakna þess Sjálfstæðisflokks sem ég gekk í fyrir nær hálfri öld. Hann hafði breidd í skoðunum, ,,stétt með stétt” og sterkan verkalýðsarm. Nú sinnir hann ekki einu sinni sínu gamla ,,höfuðvígi”, VR. Flokkurinn tók fullan þátt í þróun velferðarkerfisins. Hann studdi ,,frjálshyggju” eins og Ólafur Björnsson og Jónas Haralz skilgreindu hana. Svo komu Reagan, Thatcher og ,,nýfrjálshyggjan”, sem var í raun bara endurtekning á ,,laissez faire”, sem leiddi til hrunsins 1928 og Kreppunnar miklu. Þessi stefna var auðvitað tekin upp hér, menn trúðu ekki bara á rök sín heldur rökstuddu trú sína. Hér heima bættum við gráu ofan á svart. Þegar ,,hrunið” óhjákvæmilega varð 2008 vorum við nálægt því að glata fjárhagslegu og þar með raunverulegu sjálfstæði landsins, sem flokkurinn tengir nafn sitt við.

Neyðarlögin voru engin afskiptaleysis nýfrjálshyggjulög. Þau voru handafls-afskipta-lög. Þau voru hörku fantatök sem landið, fullvalda ríki, beitti risabanka úti í heimi, sem fullkomlega skeytingarlausir um hag íslensks almennings höfðu lánað íslenskum bönkum óviðráðanlegar fjárhæðir, og kröfðust fullrar greiðslu á með aðstoð AGS. Enda þótt Sjstfl og samstarfsflokkur hans í rîkisstjórn, hafi ásamt öðrum flokkum á þingi, veitt Neyðarlögunum brautargengi og með því, ásamt síðari úrvinnslu mála, lagað stöðuna svo mjög að við erum aftur komin í fremstu röð, þá hefur flokkurinn okkar, því miður, ekki breytt stefnu sinni. Hann ber hag fjárfesta sem eiga um sárt að binda eftir hrunið mest fyrir brjósti og vill bæta kjör þeirra með skattalækkunum. Hann virðist líka vilja leysa öldrun og örorku með sulti. Með því að þráast við að verða aftur þessi breiði og mannúðlegi hægri flokkur, hefur hann auðvitað farið minnkandi. Hann hefur vikið til hægri og skilið eftir sig eyðu, pláss fyrir aðra. Hann hefur nú innan við 2/3 þess fylgis sem hann hafði á árum áður og fylgið virðist enn fara þverrandi.

Ég hef í nokkur ár haldið þeirri skoðun á lofti að þetta geti ekki lagast á meðan æðsta forysta flokksins er falin manni sem var sjálfur umsvifamikill í fjárfestingum og lántökum fyrir hrun og tengist miklum útlánatöpum. Hann er líka af fjölskyldu fjárfesta sem hefur lengi haft ítök umfram aðra í æðstu stjórn flokksins. Snemma á sínum formannsferli gekk hann í gegnum ,,IceHot1” málið. Það endurspeglaði alvöruleysi ungs manns með ,,silfurskeið í munni”, sem ekki hafði þá skilið til fulls hvað felst í að vera ,,opinber persóna”. Margir settu spurningarmerki við dómgreind hans. Nú er hann eldri og reynslunni ríkari. Honum er fyrirgefið þó ekki sé víst að tjónið hafi verið bætt. Ég hef haldið mig til hlés með mín sjónarmið síðan hann varð forsætisráðherra. Hann er glæsilegur og myndugur leiðtogi og sjónarmið mín hafa ekki heldur hlotið hjómgrunn innan flokksins.

Varðandi prófílmyndina þína, sem ert opinber persóna og getur því ekki haft neina ,,prívatsíðu” opna öllum, þá fékk ég einhverja óþægindatilfinningu þegar hún kom fyrst fram og hef haft síðan. Athugasemd einnar eldri konu, Sjafnar Kristjánsdóttur, við status minn í fyrradag fékk mig til að skilja betur þessa tilfinningu. Þá rifjaðist ,,IceHot1” mál BB upp. Það mál er ekki sambærilegt, en með myndinni var kornung forystukona Sjstfl að sýna á sér hlið sem allir hafa, kynveruna, en sem opinberar persónur þurfa að stilla sig um að flagga. Unggæðingslegt alvöruleysi birtist á ný í æðstu forystu flokksins. Dómgreindin er til umhugsunar. Þetta er kjarni málsins. Ekki myndin, þó hún hafi afhjúpað alvöruleysið.

Það gladdi mig að þú skyldir strax skipta um mynd og setja inn mynd sem samræmist vel þinni pólitísku ímynd. Þú varst líka snögg að leiðrétta annað óhapp nýlega, það er gott. Það bendir til að þrátt fyrir ungan aldur sért þú að vaxa í þínu hlutverki. Þú brást við þannig að dómgreindin styrktist.

Sveigjanleiki og skynsemi er gott veganesti.

Ekki veit ég hvort þú tókst eftir því, en þeir sem stóryrtastir voru í stuðningi sínum við þig út af mínum status voru ekki pólitískir samherjar okkar, þvert á móti. ,,Þórðargleði” er svoleiðis ,,stuðningur” kallaður.

Ég skynja núna sterkt, almennt ákall eftir meiri alvöru og ábyrgð í stjórnmálum. Sem þriðja æðsta manni flokks okkar er þér ætlað að vera uppbyggilegur og gagnrýninn náinn samstarfsmaður formannsins. Flokkshollusta er betri en foringjahollusta. Við þurfum engar ,,elítur”, ekki nein ,,skjallbandalög”. Við þurfum aðhald og við þurfum fólk með fæturna á jörðinni og bein í nefinu.

Þú hefur mikinn áhuga á málum sem ungliðarnir vinir þínir í flokknum eltast við, vegna nýfrjálshyggju-þráhyggjunnar. Þar á ég við kröfuna um vínsölu í matvöruverslunum. Það endurspeglar unggæðingslegt alvöruleysi, sem lagast þó vonandi með aldri og reynslu, en hefur samt skert traust flokksins í samtímanum. Reyndu frekar að hlusta eftir sjónarmiðum launafólks, aldraðra og öryrkja, sem studdu Sjálfstæðisflokkinn á árum áður. Það er mikilvægt fyrir þig að umgangast ekki bara vini, félaga og já-bræður í yngri deildinni.

Að síðustu minni ég á að ,,Þórðarnir” munu væntanlega halda áfram að ,,gleðjast” yfir einhverju í þessu bréfi. Láttu það ekki villa þér sýn, þeir eru ekki samflokksmenn okkar.

Gangi þèr sem allra best, RÖn


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×