Skoðun

Barátta mín fyrir því að fá hjálp í heilbrigðiskerfinu á Íslandi

Valgeir Matthías Pálsson skrifar
Ég, Valgeir Matthías Pálsson, hef barist fyrir því síðastliðin 2-3 ár að fá hjálp í heilbrigðiskerfinu á Íslandi. Ég hef barist fyrir því að fá viðurkenndan þann rétt minn samkvæmt stjórnarskrá að fá hjálp, en án árangurs.

Mál mitt hefur þvælst á milli stofnana ríkisins eins og Embættis landlæknis, Umboðsmanns Alþingis og velferðarráðuneytisins með litlum eða engum árangri.

Ég hef litla sem enga aðstoð fengið á Landspítalanum frá árinu 2008. Það ár tóku nýir læknar við meðferð minni. Ég hef glímt við þunglyndi og kvíða um margra ára skeið.

Oft spyr ég mig þeirrar spurningar hvers vegna sumir fái hjálp en aðrir ekki. Er það réttlátt á þeirri forsendu að allir skuli vera jafnir gagnvart stjórnarskránni og öllu því tilheyrandi.

Mannréttindi eru brotin á mér vegna þessa máls og einnig er 76. grein stjórnarskrárinnar þverbrotin gagnvart mér í þessu máli. Einnig má benda á það að í sjúklingalögum eru allmargar greinar brotnar á mér.

Mál mitt er ekki flókið. Það snýst um það að ég fái hjálp á erfiðum stundum eins og allir aðrir þegnar þessa lands. Margir kunna að spyrja sig þeirrar spurningar hvers konar hjálp ég sé að sækjast eftir. Því er til að svara að ef maður er með miklar sjálfsvígshugsanir, þá á maður náttúrlega að fá hjálp á geðsviði LSH!

Ég skrifa þennan pistil hér vegna þess að ég hef barist, ég hef barist einn og án mikils stuðnings í þessu máli síðastliðin 2-3 ár. Ég hafði góðan mann mér við hlið vegna þessa máls allt þar til fyrir stuttu að hann fór utan í námsleyfi. Mannréttindalögfræðingar á Íslandi hafa ekki sýnt máli mínu mikinn skilning. Enda kannski lagalega flókið í lögfræðilegum skilningi.

Mér þykir eins og samfélagið, Ísland, hafi brugðist mér. Hvers á ég að gjalda? Setjið ykkur í mín spor. Ef þið verðið veik, þá eigið þið að sjálfsögðu rétt á því að fá bestu og fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem völ er á hverju sinni.

Ég blæs á allar sögur um það að ekki sé til nægt fjármagn í heilbrigðiskerfinu til að sinna málum eins og þeim sem lúta að mér. Ég blæs á það. Það eru til nægir peningar á Íslandi. Þeim er bara ekki rétt varið.

Það á að vera sjálfsögð krafa allra að eiga rétt á góðri og fullkominni heilbrigðisþjónustu hvar í flokki sem menn standa.

Ég hef ekki góða sögu að segja frá stofnunum eins og Embætti landlæknis og fleiri stofnunum ríkisins sem sinna þessum málum. Landlæknisembættið kóar með læknum á Landspítalanum og alltaf hafa þeir rétt fyrir sér. Aldrei sjúklingurinn.

Hjá Landlækni starfa margir læknar sem sinnt hafa störfum á Landspítalanum og hafa því góða innsýn í störf spítalans.

Í lokin vil ég segja eftirfarandi. Það er óeðlilegt og óafsakanlegt að láta fólk sem líður andlegar vítiskvalir vera heima hjá sér án alls stuðnings og eftirlits. Það þekkist ekki í þjóðfélögum sem við viljum bera okkur saman við.

En ég vildi bara með þessum pistli segja frá því að það er til fólk hér á Íslandi sem ekki fær hjálp á erfiðustu stundum lífs síns. Þegar veikindi herja á.

 

Höfundur er öryrki.




Skoðun

Skoðun

Sigur­bogi

Dagbjört Ósk Steindórsdóttir skrifar

Sjá meira


×