Innlent

Árásarmaðurinn í Kópavogi látinn laus

Hulda Hólmkelsdóttir og Kolbeinn Tumi Daðason skrifa
Maðurinn verður að líkindum kærður fyrir stórfellda líkamsárás af því hann sló Gunnlaug með steini.
Maðurinn verður að líkindum kærður fyrir stórfellda líkamsárás af því hann sló Gunnlaug með steini. Vísir/Vilhelm
Mennirnir þrír sem réðust inn á heimili Gunnlaugs Sigurðssonar í vesturbæ Kópavogs seint á þriðjudagskvöld, voru látnir lausir í gærkvöldi að loknum yfirheyrslum. Ekki verður farið fram á gæsluvarðhald yfir mönnunum.

Greint var frá því í gærmorgun að þrír menn hefðu ráðist inn á heimili í Vesturbæ Kópavogs rétt fyrir miðnætti á þriðjudagskvöld og gengið í skrokk á húsráðanda sem ætlaði að stugga við þeim. Við það hefði hann hlotið nokkra áverka, meðal annars misst meðvitund og nokkrar tennur.

„Það er bara í ferli í rannsóknardeild og fer svo áfram til ákærusviðs,“ segir Gunnar Hilmarsson aðalvarðstjóri í samtali við Vísi.

Undir áhrifum fíkniefna

„Þeir voru teknir eftir miðnætti þá höfðum við sólarhring til að tala við þá. Það þurfti aðeins að láta renna af þeim áður en hægt var að tala við þá,“ segir Gunnar en mennirnir voru undir áhrifum fíkniefna eða einhverra annars konar lyfja þegar brotið átti sér stað.

Gunnar segir að allar líkur séu á að mennirnir verði ákærðir.

„Það verður gert, þetta er bara í ferli.“

Hefði getað verið verra

Gunnlaugur var afar yfirvegaður þegar blaðamaður Vísis ræddi við hann um málið í gær. Hann sagði lögreglumennina þó hafa tjáð sér að líklega yrði kært fyrir stórfellda líkamsárás. Sjálfur var hann efins um tilgang þess að kæra málið.

„Maður hefði getað lent í miklu verra, þeir komu ekki með hafnaboltakylfur og rotuðu alla og tæmdu húsið, þetta var ekki svoleiðis. Þetta eru bara ógæfumenn,“ sagði Gunnlaugur.

Sonur Gunnlaugs, knattspyrnukappinn Höskuldur Gunnlaugsson, tjáði sig um atvikið í morgun.

„Mikið sem ég óska þess að ég hefði getað verið á staðnum, en pabbi gamli, sem nýverið varð 67 ára gamall, var allur hinn hressasti í gær,“ sagði Höskuldur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×