Viðskipti innlent

Fimm milljarða króna lán til Landsnets

Daníel Freyr Birkisson skrifar
Lánið er veitt til fjármögnunar Þeistareykjalínu 1, Kröflulínu 4 og til að styrkja flutningskerfið í Skagafirði og á Snæfellsnesi.
Lánið er veitt til fjármögnunar Þeistareykjalínu 1, Kröflulínu 4 og til að styrkja flutningskerfið í Skagafirði og á Snæfellsnesi. Vísir/Vilhelm
Landsnet og Norræni fjárfestingarbankinn hafa skrifað undir lánasamning að fjárhæð 50 milljóna Bandaríkjadala, um 5,2 milljarða króna, til að fjármagna framkvæmdir við Þeistareykjalínu 1, Kröflulínu 4 og til að styrkja flutningskerfið í Skagafirði og á Snæfellsnesi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsneti.

Framkvæmdirnar á Norðausturlandi skiptast í tvo verkhluta: Tengingu á milli Bakka og Þeistareykja með Þeistareykjalínu 1 og tengingu á milli Þeistareykja og Kröflu með Kröflulínu 4 auk byggingu nýrra yfirbyggðra tengivirkja á hverjum stað. Allt verkefnið var hannað með það að leiðarljósi að mannvirki og vegslóðar falli sem best að umhverfinu. Þá er einnig um að ræða fjármögnun á lagningu á 66 kV jarðstrengjum sem ætlað er að styrkja flutningskerfið og auka öryggi í svæðisbundna kerfinu.

Guðlaug Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Landsnets, er þakklát fyrir traustið sem bankinn sýnir Landsneti. „Við erum ánægð með það traust sem NIB hefur sýnt okkur með þessari lánveitingu. NIB gerði sérstaka úttekt á umhverfisþáttum framkvæmdanna og það er ánægjulegt að segja frá því að Landsnet stóðst allar kröfur bankans varðandi umhverfisþætti enda leggjum við mikla áherslu á umhverfismál þegar kemur að okkar framkvæmdum.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×