Sport

Stjórnarfólk Sundsambandsins fær ekki styrk til að fara á EM

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hörður Oddfríðarson, formaður SSÍ.
Hörður Oddfríðarson, formaður SSÍ.
Stjórn SSÍ hefur samþykkt að fella samþykkt um styrk til stjórnarmanna til að fara á EM í 25 metra laug í Kaupmannahöfn úr gildi.

Sundkonan Ingibjörg Kristín Jónsdóttir gagnrýndi þá ákvörðun SSÍ að bjóða stjórnarfólki á EM í viðtali við Morgunblaðið í dag.

„Ég held að allir séu orðnir mjög langþreyttir á þessu ástandi, og það er bara kornið sem fyllti mælinn að Sundsambandið sé nú tilbúið að greiða stjórnarmönnum fyrir að fara á mót. Er þetta eitthvert djók? Hvernig er verið að forgangsraða?“ spurði Ingibjörg en landsliðsfólk í sundi hefur í gegnum tíðina þurft að greiða sjálft ferðakostnað á mót.

Í dag samþykkti stjórn SSÍ í netkosningu að fella úr gildi fyrri samþykkt um styrk til stjórnarfólks. Það verður því ekkert að því að stjórnarfólk SSÍ fái styrk til að fara á EM.

„Stjórn SSÍ samanstendur af áhugafólki um sundíþróttir, þar sitja foreldrar sundfólks, fyrrum og núverandi afreksfólk í sundi, fyrrverandi og núverandi þjálfarar og fólk sem vill veg sundíþrótta sem mestan,“ segir í yfirlýsingu sem SSÍ sendi frá sér í dag.


Tengdar fréttir

Íslensk afrekssundkona: Er þetta ekki eitthvert djók?

Sundkonan Ingibjörg Kristín Jónsdóttir er allt annað en sátt með ákvörðun Sundsambands Íslands að bjóða stjórnarfólki Sundsambandsins á EM í Kaupmannahöfn á meðan landsliðsfólkið greiddi sambærilega upphæð fyrir að fara á Smáþjóðaleikana fyrr á þessu ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×