Innlent

Fengu að vera í samfloti með snjómoksturstækjum

Aron Ingi Guðmundsson skrifar
Frá Patreksfirði.
Frá Patreksfirði. vísir/aig
Íbúum á sunnanverðum Vestfjörðum var boðið að vera í samfloti á eftir snjómoksturstækjum frá Patreksfirði yfir Klettsháls í morgun, en skyggni var afar lítið og skafrenningur mikill. Sama þjónusta var veitt í gærdag á sama svæði og er þetta liður í auknu þjónustustigi Vegagerðarinnar vegna bilunar á ferjunni Baldurs.

Bríet Arnardóttir hjá Vegagerðinni á Patreksfirði sagði að Klettsháls væri ófær fólksbílum sem stendur en unnið væri hörðum höndum að aðstoða flutningabíla við að komast leiða sinna með ferskvöru. Það væri gert alla daga og hefði það gengið nokkuð vel miðað við aðstæður að hennar sögn.

Samkvæmt lögreglunni á Vestfjörðum verður veginum milli Súðavíkur og Ísafjarðar lokað klukkan 22:00 vegna snjóflóðahættu. Lögreglan sagði enn fremur að það gæti farið svo að þeim vegi yrði lokað fyrr, það færi eftir veðri en lokunartími er miðaður við veðurspá Veðurstofu Íslands og við þjónustutíma Vegagerðarinnar. Snjóflóð hafa fallið í Súðavíkurhlíð í vikunni.

Hrafnseyrarheiði og Dynjandisheiði eru áfram ófærar sem og Strandavegur en vegurinn milli Flateyrar og Ísafjarðar hefur haldist opinn.

Öllu flugi milli Reykjavíkur og Ísafjarðar var aflýst í dag sökum veðurs að sögn Flugfélags Íslands, en flogið var á milli Reykjavíkur og Bíldudals með flugfélaginu Erni samkvæmt áætlun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×