Íslenski boltinn

Kassim Doumbia verður ekki áfram hjá FH

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Kassim Doumbia í leik með FH.
Kassim Doumbia í leik með FH. Vísir/Andri Marinó
Miðvörðurinn Kassim Doumbia verður ekki áfram í herbúðum FH í Pepsi-deild karla í fótbolta, samkvæmt heimildum íþróttadeildar, en þetta kom fram í Sportpakkanum á Stöð 2 í kvöld.

Ekki var vilji hjá FH að semja aftur við Doumbia sem gekk í raðir FH árið 2014 og varð Íslandsmeistari með liðinu árin 2015 og 2016. Hann varð samningslaus í lok síðustu leiktíðar.

Samkvæmt heimildum íþróttadeildar er mikil eftirspurn eftir þessum 27 ár gamla varnarmanni, en KA, Keflavík, Fjölni og ÍBV hafa öll spurst fyrir um hann.

Doumbia mun þó, samkvæmt heimildum, ekki leika áfram á Íslandi. Hann er búinn að kaupa hús í Belgíu og hyggst komast að hjá liði þar í landi.

Kassim Doumbia spilaði 83 leiki í deild og bikar fyrir FH og skoraði í þeim ellefu mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×