Fótbolti

Ljónin misstigu sig í toppbaráttunni og Kiel fékk enn einn skellinn

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Alfreð Gíslason hefur þjálfað Kiel í nærri áratug
Alfreð Gíslason hefur þjálfað Kiel í nærri áratug Vísir/getty
Rhein-Neckar Löwen missteig sig í toppbaráttu þýsku 1. deildarinnar í handbolta í kvöld þegar að liðið tapaði, 28-26, á útivelli gegn Frisch AUF! Göppingen.

Leikjaálagið á Ljónunum hefur verið yfirgengilegt í nóvember og virðist það hafa náð til manna í kvöld en Göppingen er í tólfta sæti og ætti að vera auðveld bráð fyrir Þýskalandsmeistarana.

Guðjón Valur Sigurðsson skoraði sex mörk úr sjö skotum, þar af tvö mörk úr vítaköstum, fyrir Löwen í kvöld og Alexander Petersson skoraði fjögur mörk úr sjö skotum fyrir utan.

Löwen missti Rúnar Kárason og félaga í Hannover-Burgdorf upp fyrir sig í þriðja sætið með tapinu en Hannover vann tveggja marka útisigur á móti Lemgo í kvöld, 29-27. Rúnar skoraði tvö mörk úr fimm skotum fyrir utan en Hannover er að lauma sér í baráttu um Þýskalandsmeistaratitilinn.

Alfreð Gíslason er enn þá í stórkostlegum vandræðum með Kiel en liðið fékk enn einn skellinn í kvöld þegar að liðið tapaði fyrir Gummersbach með fjórum mörkum, 31-27.

Kiel er aðeins með 17 stig eftir fjórtán umferðir, sex stigum frá toppnum og ekki í Evrópusæti. Gummersbach er í 14. sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×