Innlent

Bæta þarf lestrarkennslu á miðstigi grunnskólans

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Lestrarkennslu þarf að bæta á miðstigi grunnskólans. Þetta má lesa út úr niðurstöðum lesfimiprófa fyrir september 2017.
Lestrarkennslu þarf að bæta á miðstigi grunnskólans. Þetta má lesa út úr niðurstöðum lesfimiprófa fyrir september 2017. Vísir/Vilhelm
Lestrarkennslu þarf að bæta á miðstigi grunnskólans. Þetta má lesa út úr niðurstöðum lesfimiprófa fyrir september 2017.

Arnór Guðmundsson, forstjóri Menntamálastofnunar, segir niðurstöðurnar í takti við það sem búast mátti við. Það sé augljóslega hópur mjög öflugra nemenda í grunnskólanum.

„Það er svolítið áhyggjuefni að eftir fjórða bekk, á miðstigi, er eins og það dragi úr lestrarkennslunni og ekki mikil bæting þar. En síðan taka menn aftur kipp á unglingastigi,“ segir Arnór.

Forstjórinn segist ánægður með áhuga skólanna á lesfimiprófinu. „Það er um 80-90 prósent þátttaka og skólar og sveitarfélög eru mjög vakandi yfir þessu. Reykjavíkurborg er að fylgja þessu fast eftir með sína skóla og fleiri sveitarfélög.“

Arnór segir að áður hafi verið bent á að auka þurfi lestrarkennsluna á miðstigi. „Almennt virðast skólar taka það alvarlega að kenna lestur vel. En svo er eins og þeir slaki á og fari að leggja meiri áherslu á aðrar greinar. En lestur og lesfimi er bara eins og að hlaupa. Þú verður að viðhalda þessu, annars minnkar þolið.“ Mögulega þurfi að skerpa betur á þessu í námskránni. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×