Innlent

Enginn ætti að hafa kveikt á jólaseríu á nóttunni

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Landsmenn eru hvattir til að skipta um rafhlöður í reykskynjurum sínum föstudaginn 1. desember sem er dagur reykskynjarans. Þá ætti enginn að hafa kveikt á jólaseríum á nóttunni. Þetta kom meðal annars fram við setningu eldvarnarátaks  Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna á Selfossi í dag.

Brunabjöllurnar glumdu í Sunnulækjarskóla á Selfossi við setningu eldvarnarátaksins og hófst þegar rýming þeirra 670 nemenda sem eru í skólanum.  Krökkunum var safnað saman á sérstök svæði á  útisvæði við skólann þar sem fór fram manntal og annað sem gera þarf við rýmingu sem þessa.

Eldvarnarátak Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna er árlegt þegar líður að jólum.

„Þetta snýst um að passa upp á heimili sitt, að allir séu með reykskynjara, slökkvitæki, eldvarnarteppi og þess háttar,“ sagði Stefán Pétursson, formaður Landssambands slökkviliðs-og sjúkraflutningamanna.

Þegar formlegheitunum var lokað var farið til nemenda í þriðja bekk þar sem þau fengu fræðslu um eldvarnir og hvað ber að varast svo það kvikni ekki í. Bæjarstjórinn í Árborg var með fræðslu um reykskynjara en föstudagurinn 1. desember verður dagur reykskynjarans.

Það er ýmislegt sem þarf að hafa í huga þegar þegar það er aðeins um mánuður til jóla þegar eldvarnir eru annars vegar. Það á til dæmis ekki að vera kveikt á jólaseríum á nóttunni.

„Við eigum ekki að vera með neitt sem er með rafmagni í gangi þegar við erum sofandi. Rafmagn framleiðir hita og það er hitinn sem getur kveikt í hlutum,“ segir Haukur Gronli, varaslökkviliðsstjóri Brunavarna Árnessýslu.

Nemendur Sunnulækjarskóla eru vel meðvituðum um  hvað þarf að passa á heimilum.

„Að halda augunum á jólakertunum og ljósunum,“ segir Daníel Breki Sigvaldason.

„Og slökkva á þeim þegar við förum að heiman eða erum sofandi,“ segir Agnes Ísabella Jónasdóttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×