Erlent

Leynileg lyfjagjöf á leikskólum skekur Kína

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Mótmælendur voru í öngum sínum fyrir utan leikskólann í gær.
Mótmælendur voru í öngum sínum fyrir utan leikskólann í gær. whatsonweibo
Stjórnendur leikskóla í kínversku höfuðborginni Peking eru sakaðir um að bólusetja börn og gefa þeim hvers kyns lyf án vitundar foreldranna.

Málið hefur vakið mikla athygli og reiði í Kína og rannsaka yfirvöld nú málið. Leikskólinn er hluti af mikilsmetinni keðju sem rekur leikskóla víðsvegar um Kína.

Hið minnsta átta börn á leikskólanum eru talin hafa verið sprautuð með óræðu efni. Foreldrar barnana segjast hafa rekið augun í för eftir nálar á börnunum sínum á síðustu dögum og ákveðið að bera saman bækur sínar. Þeir segja jafnframt að börnunum hafi verið gefin lyf og síróp fyrir hvíldartímana á leikskólunum.

Mótmælendur fylgdust með fréttaflutningi er þeir stóðu fyrir utan leikskólann.SCMP
Þá er haft eftir nokkrum foreldrum að börn þeirra hafi verið beðin um að afklæðast í leikskólanum, sem vakið hefur grun um kynferðislega áreitni.

Hópur foreldra safnaðist saman fyrir utan leikskólann í gær og mótmælti. Talsmaður mótmælenda sagði í samtali við þarlenda miðla að þá grunaði að nálarnar hefðu verið notaðar til að refsa börnunum.

Lögreglan hefur lagt hald á myndbandsupptökur úr leikskólanum og þá hefur þremur kennurum verið sagt upp störfum.

Forsvarsmenn leikskólakeðjunnar hafa beðist „innilegrar afsökunar“ á málinu sem hefur vakið „umtalsverðar áhyggjur,“ eins og það er orðað á vef breska ríkisútvarpsins.

Stjórnvöld í Peking ætla jafnframt að rannsaka alla leikskóla og daggæslur höfuðborgarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×