Körfubolti

Tryggvi fær að spila leikinn við Búlgara í Höllinni | KKÍ harmar deilurnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tryggvi Snær Hlinason í leik með íslenska landsliðinu á EM.
Tryggvi Snær Hlinason í leik með íslenska landsliðinu á EM. Vísir/Getty
Tryggvi Snær Hlinason missir af leik Íslands og Tékklands í undankeppni HM í kvöld en Körfuknattleikssambandið hefur staðfest það að Tryggvi verði aftur á móti með í leiknum á móti Búlgaríu á mánudagskvöldið.

Tryggvi flýgur heim til Íslands í dag, föstudag, og nær seinni leiknum með Íslandi gegn Búlgaríu sem verður í Laugardalshöllinni á mánudagskvöldið.

Tryggvi Snær átti leik í gærkvöldi í EuroLeague með Valencia gegn Brose Bamberg í Þýskalandi þar sem þeir þýsku höfðu eins stigs sigur en Tryggvi fékk þó ekkert að spila í leiknum.

KKÍ hefur verið í talsverðum samskiptum við forsvarsmenn Valencia undanfarnar vikur og um miðja vikuna náðist samkomulag um að Tryggvi fengi að koma heim.  Þetta kemur fram á heimasíðu KKÍ.

KKÍ harmar þær deilur sem eru á milli FIBA og EuroLeague og það er sérstaklega svekkjandi að EuroLeauge hafi ekki staðið við þann samning sem gerður var fyrir um ári síðan um að leikir færu ekki fram í EuroLeague á meðan landsleikjaglugginn er í gangi hjá FIBA.

Brynar Þór Björnsson mun einnig koma inn í hópinn á nýju eftir veikindi sem urðu til þess að hann fór ekki með liðinu til Tékklands. Það verða því þrettán leikmenn sem Craig Pedersen getur valið úr fyrir seinni leikinn í þessum landsliðsglugga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×