Enski boltinn

Cantona: Elska Mourinho en vil sjá United liðið spila meira eins og lið Guardiola

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eric Cantona.
Eric Cantona. Vísir/Getty
Eric Cantona er goðsögn hjá Manchester United eftir fimm ótrúleg ár hjá félaginu frá 1992 til 1997. Hann vann fjóra meistaratitla og tvo bikarmeistaratitla á þessum fimm tímabilum.

Hann er ánægður með knattspyrnustjóra félagsins í dag en vill þó sjá Manchester United liðið spila skemmtilegri fótbolta.

Cantona lýsir knattspyrnustjóranum Jose Mourinho sem sigurvegara sem haldi alltaf áfram að vinna.

„Hann er að spila varnarsinnaðan fótbolta sem er ekki einkennismerki Manchester United,“ sagði Eric Cantona í viðtali við útvarp BBC.

„Manchester United er eins og Barcelona. Ég elska Mourinho. Ég er hrifinn af hans  persónutöfrum og hann er mjög klár. Hann setur alla pressuna á sig sjálfan. Ég elska manninn en ég elska Guardiola líka,“ sagði Cantona.

„Þeir eru báðir frábærir en ég vil frekar sjá sóknarfótbolta og meiri skapandi fótbolta. Ég reyndi að spila þannig allan minn feril,“ sagði Cantona.

Manchester United er átta stigum á eftir toppliði Manchester City en City-liðið hefur unnið sautján leiki í röð í öllum keppnum. United liðið hefur skorað ellefu mörkum færra.

„United er mitt félag. Félagið er í mínu blóði en þegar ég horfi á fótbolta í dag þá vil ég sjá meiri skapandi fótbolta,“ sagði Cantona.

„Ég horfi á lið eins og Barcelona eða Real Madrid liðið hans [Zinedine] Zidane þar sem leikmenn eins [Luka] Modric eða [Toni] Kroos eru heilinn á bak við leik liðsins,“ sagði Eric Cantona.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×