Lífið

Hvað er það allra besta við jólin?

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Samvera með fjölskyldunni er efst á baugi um jólin.
Samvera með fjölskyldunni er efst á baugi um jólin. Vísir / Samsett mynd
Nú nálgast jólin óðfluga og aðventan er handan við hornið. Við gripum því tækifærið og spurðum fjölmarga álitsgjafa hvað væri í raun það allra besta við jólahátíðina.

Svörin voru jafn mismunandi og þau voru mörg en flest áttu þau það sameiginlegt að fólk verður hálf meyrt þegar það er spurt út í hvað þann kann mest að meta við þessa hátíð ljóss og friðar. 

Flestir álitsgjafanna voru sammála um að samvera með fólkinu sem maður elskar sé það langbesta við jólin, aðrir minntust á mat, sumir á stemninguna sem fylgir því að undirbúa jólin og enn aðrir töluðu um blessuð börnin sem verða svo spennt.

Hér á eftir fylgja ummæli álistgjafa okkar um hvað það besta sé við jólin og geta eflaust flestir fundið sig í einhverjum þessara ummæla.

Samvera ástvina

„Að sjálfsögðu er það besta við jólin samveran við fólkið sem maður elskar og góður matur sem maður borðar án samviskubits. Vera heima á náttfötunum með fólkinu sem maður elskar, kveikt á kertum, hangikjötsilmur í húsinu og machintosdollan hálfnuð því að rauðu og appelsínugulu molarnir eru að sjálfsögðu eftir.“

„Það besta við jólin er að vera saman með fjölskyldunni. Að eyða jólunum með fjöldskyldunni í gleði, mat og gjöfum lætur mann gleyma öllum áhyggjum sem að liggja á manni, maður á að njóta þess að eyða jólunum með fjölskyldunni.“

„Það besta við jólin er samvera fjölskyldunnar. Hér er heimilið undirlagt alla aðventuna af piparkökuskreytingum og jólakortagerð. Ómandi jólatónlist og mandarínubörkur og laufabrauðsmylsna um allt gólf. Eftirvæntingin og spenningur barnanna eru jólin fyrir mér.“

„Það besta við jólin er að hitta allt yndislega fólkið sitt. Það er einhvernvegin þannig að maður gefur sér ekki tíma í að njóta jafn mikið með þessum frábæra hóp nema já á jólunum.“

„Þegar ég var 13 ár þá bjó ég í Florida mér fannst svo skrítið að það væri ekki snjór í desember og afhverju allir væru að setja út jólaskraut í 25 stiga hita. Það var bara eitt sem mér var efst í huga hvað ég saknaði Íslands og fjölskyldunnar minnar mér langaði bara heim í snjóinn og kuldann. Þegar ég sat í flugvélinni á leiðinni aftur til Íslands þá fór ég strax að hugsa hvað mig hlakkaði til að hitta systur mína aftur og eiga jólastund með henni. Alltaf þegar við vorum búinn að borða þá förum við öll í Sing Star saman ég er algjörlega laglaus nema þegar ég fékk að syngja Poison með Alice Cooper þá hentar það vel að vera smá falskur. Á jóladag þá tókum við Star Wars eða Lord Of the Rings Maraþon og horfðum á allar myndirnar í röð. Þetta voru bestu jól sem ég hef upplifað því ég fékk jólagjöf sem ekki er hægt að kaupa sem var tími með þeim sem ég elska. Vinskap er ómögulegt að deila með sér sjálfum, það teygir ávallt út í óravídd alheimsins ég mundi ferðast þvert yfir heiminn til að snerta hjartað þeirra sem ég elska, alveg eins og þau lögðu á sig langa leið til að snerta hjarta mitt. Sönn vináttutengsl eru ekki mæld í tíma sem er varinn saman né greiðum sem gerðir eru, heldur í þæginda í anda fyrir það að vita að við hugsum og deilum sama hug og hjarta saman. Jólin eiga ekki að snúast um gjafir heldur samverustundir með þeim sem okkur þykir vænt um.“

„Ró og friður, náttfötin, góði maturinn og samveran með fjölskyldunni,og vinum kann ég best að meta yfir jólin. En það allra besta við aðventuna og þá jólin er sú tilfynning að náungaærleikurinn og í nærumhverfi okkar eykt umtalsvert.“

„Það besta við jólin er klárlega samverustundir með fjölskyldunni. Svo heillar hátíðleikinn og ljósin, lyktin og jólatrén og skreytingar. Piparkökur og mandarínur, góð bók og kertaljós. Síðan eru góðar jólamyndir nauðsynlegar. Jólamaturinn er líka góður og rjúpulyktin sem leggur um húsið.“

„Vera í faðmi fjölskyldunnar og borða góðan mat. það er eiginlega ekkert flóknara en það. Samvera, kærleikur og slíkt.“

„Best af öllu við jólin eru fjölmennu fjölskyldustundirnar og jólaboðin, maturinn himneskur að hætti mömmu og tengdamömmu. Það stefnir allt í að við litla vísitölufjöllan verðum heima í fyrsta skipti ever, ég kvíði því pínu en líklega bara af því það er nýtt. Jólin hafa með árunum orðið að besta tíma ársins eftir fæðingar barnanna minna.“

„Ég er náttúrulega rosalegt jólabarn. Það besta við jólin er væntumþykjan sem er í loftinu, kærleikurinn og samveran. Þó sumir stressist upp þá finn ég ekki mikið fyrir því... mér finnst viss tegund af stressi bara fín, gera og græja til að undirbúa kósýheitin. Afslöppun eftir stressið er svo frábær! Maður nýtur slökunarinnar eiginlega ennþá betur. Ég brosi allavega allan tímann, bæði í undirbúningi og þegar maður sest niður til að njóta alls! Best er líka að muna að njóta allann tímann, gera smá og smá kósý og skemmtilegt inná milli alltaf!“

„Það besta við jólin er að slaka á og njóta með fjölskyldunni á aðfangadagskvöld, komin í náttföt, búin að borða yfir mig og sjá gleðina í augum barnanna minna. Allt jólastressið búið.“

„Fjölskylduboð stórfjölskyldunnar. Við erum svo lánsöm að jólaboðið er alltaf haldið í risahúsi með spilaaðstöðu í kjallaranum, keppnis á milli kynslóða og keppnisskapið hleypur með alla í gönur. Sú stutta hefur svo tekið uppá því að vera með atriði og syngja fyrir alla hersinguna. Þá springur mömmuhjartað alltaf aðeins af stolti yfir ljósgeislanum sínum. Matarboð minni stórfjölskyldunnar eru svo rosa skemmtileg, þau jól sem einhver nennir að halda þau, sem því miður gerist alls ekki alltaf. Þá er spjallað um allt, oft á háu nótunum, spilað og bara almenn gleði. Það er eitthvað svo notalegt að finna að maður er hluti af fjölskyldu, þó að maður sé ekki í miklu sambandi þá líður manni vel að finna það að vera tengdur fólki, án þess að það sé sérstaklega vegna vinskapar eða vinnu.“



Stemmingin og hátíðleiki

„Það besta við jólin að mínu mati er stemmingin, eftirvæntingin í loftinu og hátíðleikinn. Góður matur á hverjum degi, allir í sínu fínasta pússi daginn út og inn en á móti koma líka dagar þar sem maður er í náttfötunum allan daginn sem er snilld. Konfekt í morgunmat er líka góður fylgifiskur þessa tíma.“

„Það besta við jólin er allt hygge-ið í aðdragandanum. kerti í skammdeginu, jólaljósin, góða lyktin af mandarínum, bakstrinum og greni, skreytingar frá mömmu og ömmu, gjafakaup fyrir þá sem þú elskar, tónlist sem vekur upp nostalgíu og allar samverustundirnar með þeim sem þú ert svo heppinn að deila lífi þínu með. besti tími ársins!“

„Ég elska jólin, og allt sem með þeim kemur. Þegar ég var krakka var það besta við jólin jólasveinarnir. Ég var alltaf svo spennt á hverju kvöldi. Mamma segir að aldrei hefur verið eins auðvelt að fá mig til að sofa eins og í desember. En núna er það preppið fyrir jólin. Allur undirbúningurinn er jólagaldurinn. Útaf þvi að ég bý ekki í sama landi og foreldrar mínir verð ég að vera búin að versla allar gjafir og búin að gera allt áður en ég fer til Danmerkur og held uppá jólin með þeim. Jólalögin eru sett á símann og heyrnatólin upp frá fyrsta í aðventu. Allan desember er ég bara í stuði! Skreyti heima hjá mér, baka, kaupi jólagjafir og allt. En jólin byrja fyrst í alvörunni um leið og ég fer um borð í flugið heim til mömmu og pabba. Ég fer snemma og við jólum á fullu frá því að ég lendi. Ég verð krakki aftur, alltaf. Þó ég sé orðin 32ja ára þá gleymi ég stressinu og því að ég sé fullorðin þessa daga og fæ bara á jóla. Skreyta, elda, baka, pakka inn, klippa, líma, horfa og hlusta.“

„Það besta við jólin er að mínu mati allt sem gerist á undan jólunum, þ.e. aðventan. Allur aðdragandinn og tilhlökkunin. Jólin sjálf eru mjög næs en stundum hálfgert anti-climax eftir góða aðventu. Og svo er hann líka frábær þessi óskilgreindi tími sem byrjar með allskonar jólalegu (fyrsti snjórinn, IKEA-geitin í björtu báli, fréttir af týndum rjúpuveiðimönnum) og stendur þar til aðventan sjálf byrjar. Hann er reyndar kallaður pre-ventan af Diljá Ámundadóttur.“

„Horfa á jólamyndir, hlusta á jólatónlist, skera laufabrauð, borða jólamatinn, föndra jólaskraut, púsla jólapúsl, jólaskrautið, jólaljósin, kósý, baka smákökur og drekka kakó, hitta jólasveina, lesa jólasögur, kaupa jólagjafir og vera í kringum allt skrautið allstaðar. Vera í jólanáttfötum allan jóladag að jólapúsla og horfa á jólamyndir... hitta alla fjölskylduna, fiskiboð á þorláksmessu. Skata, ég elska skötu.“

„Finna ilminn af jólaglögginu, skoða jólaseríuhafið í úthverfunum, heimsækja alla með pakka á aðfangadag, marrið í frostinu, lyktin af greninu, taka upp sjúskaða jólaskrautið sem ég er búin að eiga síðan ég var barn, fara útí skóg og ná í alltof stórt tré, ofskreyta það svo og gleðjast yfir því að hafa það ekki stíliserað, borða rjúpur og eiga fyrir mengandi stórhættulegum rakettum.“

Blessuð börnin

„Sem börn lifum við í jólahefðum foreldra okkar og þær hefðir verða margar hverjar ómissandi í okkar hug og hjarta.  Svo þegar við ”fullorðnumst” og eignumst börn, kemur að þeim tímapunkti að við stökkvum út í hyldýpið og höldum okkar eigin jól án foreldranna. Við sköpum okkar eigin hefðir, borðum það sem við viljum og skreytum eftir okkar höfði. Það er svo yndislegt að upplifa börnin sín, núna í nokkur ár, eiga þessar nýju hefðir með okkur og elska þær. Þessar jólahefðir eru orðnar ómissandi.“

„Það er að sjá krakkana opna pakkana á aðfangadag.“

„Það langbesta við jólin er upplifun barnanna. Þegar ég var lítill strákur þótti mér jólin æðisleg. Maður lærði að bíða eftir einhverju sem mann hlakkaði ógurlega til og maður réði sér varla af gleði á jólunum sjálfum. Eftir barndóminn urðu jólin minna og minna spennandi og á endanum var maður hundleiður á þeim, sömu lögunum, skreytingunum og frösunum ár eftir ár, sem alltaf fóru að byrja fyrr og fyrr um veturinn, þangað til þetta var meira eins og heil árstíð en hátíð. Það snarsnerist auðvitað við þegar maður sjálfur eignaðist börn og gat aftur farið að upplifa jólin sem barn gegnum þau.“

„Dóttir mín skrifast heilmikið á við jólasveinana og eins og þeim er lagið skrifa þeir misgáfuleg, en alltaf voða ljúf svör til baka. Við bíðum hins vegar spenntar eftir því að þeir geri eitthvað af sér, þar sem sögur fara af þeim sem bölvuðum stríðnispúkum. Enn hafa þeir bara verið voða krúttilegir en hver veit, kannski taka þeir uppá einhverri vitleysu þessi jólin. Erum að vonast til að fá heimsókn.“

Jólamaturinn og allt sem honum fylgir

„Maturinn að sjálfsögðu. Manni leyfist að borða saltann mat, blanda rjóma við allt, og svo er desert eftir hverja máltíð, sama hvort það sé um morgun, hádegi eða kvöld.“

„Það besta við jólin eru mandarínur, lyktin þegar maður rífur utan af þeim börkinn og safinn spýtist framan í mann.“

„Svo er fátt betra en dæla í sig jolaöli, lakkristoppum og mandarínum, öllu í einu á meðan maður vakir fram á nætur að gera ekki neitt.“

„Svo má auðvitað ekki gleyma smákökunum, glöðu krökkunum og auðvitað pökkunum!“

Kynlíf á milli rétta og ölvun í fjölskylduboðum

„Jólin hafa mér alltaf verið erfið. Ég lék jólasvein frá 14 ára aldri og til 24 ára, í áratug, og þá voru öll jólin undir og langt fram á nýtt ár. Ég fékk einhverskonar óþol fyrir jólunum í kjölfarið og hef ekki enn náð að vinna úr því. Svo bættist það við að konan mín elskar jólin og jólalög sem ég á mjög erfitt með að þola - og hún byrjar að spila þau snemma í nóvember. Ég þarf sennilega að fara að gera eitthvað í þessu óþoli mínu. En það besta samt við jólin er að rölta niðrí bæ á Þorláksmessu, þegar og ef maður er búinn að öllu, slaka á og njóta lífsins. Allt hitt er bara stress.“

„Það sem mér finnst best við jólin er að koma heim í bæinn sinn sem brottflutt landsbyggðarbarn í borginni.“

„Ég er nú ekkert sérstakt jólabarn, það er mögulegt að það haldist í hendur við skort á gjöfum sem ég fæ enda oft talinn hálf leiðinlegur sem virðist endurspeglast í gjafamagni. Ætli það besta sé ekki að það sé meira félagslega ásættanlegt að vera ölvaður í veislum á jólunum. Finnst ég allavega fá fleiri hornaugu þegar ég er ölvaður í barnaafmælum.“

„Það besta við jólin er hvað áhugi á fínni fatnaði eykst og það er gott fyrir starfsemi mína þar sem ég sérsauma mikið jóla- og áramótakjóla. Það er viss stemning sem færist yfir allt, tilhlökkun og að vissu leiti jólastress og svo fellur allt í dúnalogn í faðmi fjölskyldunnar á Aðfangadag. Eins og gott kapphlaup sem er einu sinni á ári. Sannur jólaandi. Og enginn fer í jólaköttinn.“

„Það besta við jólin? Kynlíf milli rétta. Annað: að vera í sparifötum heima hjá sér.“

Ég fer í fríið

„Ég er kannski ekki beint hefðbundið jólabarn. En fyrir mig og mitt fólk þá eru jólin dýrmætur frítími. Í raun eini tími ársins þar sem öll fjölskyldan er í fríi á sama tíma, því höfum við reynt að vera erlendis seinustu ár yfir jólin. Þannig að afslöppun, samvera, gott veður er það sem kemur upp í hugan á mér.“

„Það besta við jólin, svona í seinni tíð, er að komast í nokkurra daga samfellt frí. Það er svo gott að geta lesið bækur á nóttunni, hangið á náttfötunum fram eftir degi og étið kíló af konfekti án þess að fá samviskubit. Klárlega það langbesta við jólin.“

Álitsgjafar:

Sigtryggur Magnason, auglýsingamaður og skáld.

Einar Mikael, töframaður

Drífa Freyju-Ármannsdóttir kvikmyndagerðarkona

Tara Brekkan Pétursdóttir, snappstjarna

Andrea Ösp Karlsdóttir, leikkona

Katrín Eva, framkvæmdastjóri FitSuccess 

Soffía Steingrímsdóttir, framkvæmdastjóri og eigandi Kvennablaðsins og Sprettu og hjúkrunarfræðingur

Sólrún Lilja Ragnarsdóttir, fjölmiðlakona

Rökkvi Vésteinsson, grínisti

Sveinn Kjartansson, eigandi Aalto Bistro

Selma Ragnarsdóttir, klæðskeri og fatahönnuður

Karl Sigurðsson, Baggalútur

Helga Einarsdóttir, framleiðandi

Fanney Birna Jónsdóttir, fjölmiðlakona

Jóel Sæmundsson, leikari

Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir, markaðsstjóri The Pier

Indíana Hreinsdóttir, ritstjóri

Orri Rafn Sigurðarson, fréttaritari hjá fotbolti.net

Álfrún Pálsdóttir, ritstýra Glamour

Freyr Alexandersson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu

Logi Marr, tónlistarmaður

Sveinn Waage, verkefnastjóri hjá Íslandsstofu

Bjarmi Hreinsson, tónlistarmaður

Kristján Hjálmarsson, viðskipta- og almannatengslastjóri H:N Markaðssamskipta

Sigga Lísa, ofurkvendi

Jens Sævarsson, uppgjafa fótboltamaður

Aðalsteinn Kjartansson, fréttamaður







Fleiri fréttir

Sjá meira


×