Erlent

Lokuð inni á kaffihúsi við Oxford Street í rúman klukkutíma

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Hermann og dætur hans, Marta Björg og Halldóra, voru alsæl að komast út af kaffihúsinu eftir að hafa verið lokuð þar inni í rúman klukkutíma.
Hermann og dætur hans, Marta Björg og Halldóra, voru alsæl að komast út af kaffihúsinu eftir að hafa verið lokuð þar inni í rúman klukkutíma.
Hermann Einarsson var staddur á kaffihúsi skammt frá Oxford Street í London þegar mikil skelfing greip um sig á svæðinu upp úr klukkan 16:30 í dag þar sem fregnir bárust af því að skotum hefði verið hleypt af á verslunargötunni.

Vísir náði tali af Hermanni um klukkutíma eftir að lögreglunni barst fyrst tilkynning um málið. Hann var þá læstur inni á kaffihúsinu ásamt dætrum sínum sem hann er með í London en kaffihúsið er í hliðargötu frá Oxford Street.

Skömmu eftir að Vísir ræddi við hann var byrjað að hleypa fólki aftur út en þegar hann var beðinn um að lýsa andrúmsloftinu fyrst eftir að fregnir um skothvelli bárust sagði hann:

„Það fór allt í panikk og öllum var hrúgað niður í kjallara. En núna eru allir bara rólegir og bíða eftir að komast út.“

Hann sagði panikk-ástandið hafa varað í um hálftíma en að starfsfólk kaffihússins hefði staðið sig frábærlega. Skömmu eftir að Vísir ræddi við Hermann voru hann og dætur hans komin út.

Lögreglan í London var með mikinn viðbúnað á Oxford Street og þá aðallega við neðanjarðarlestarstöðina Oxford Circus. Lögreglunni bárust fjöldi tilkynninga um skothvelli og miðaðist viðbúnaður lögreglunnar við það að um mögulega hryðjuverkaárás væri að ræða.

Mikil skelfing greip um sig á svæðinu og fólk flúði í burt frá neðanjarðarlestarstöðinni og flúði inn í verslanir þar sem lögreglan sagði því að halda kyrru fyrir. Í dag er Svartur föstudagur, einn stærsti verslunardagur ársins, þar sem verslanir bjóða ríflegan afslátt af hinum ýmsu vörum. Það var því mikið af fólki á Oxford Street síðdegis í dag enda aðalverslunargatan í London.

Skömmu eftir klukkan 18, um einum og hálfum tíma eftir að fyrstu tilkynningar bárust um málið,var dregið úr viðbúnaði lögreglu. Engar sannanir eru fram komnar um það að skotum hafi verið hleypt af.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×