Körfubolti

Finnur Freyr: Öll stemmningsskotin klikkuðu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Martin Hermannsson skoraði 29 stig og var stigahæstur á vellinum.
Martin Hermannsson skoraði 29 stig og var stigahæstur á vellinum. vísir/ernir
„Við vorum í vandræðum með stærðina á þeim allan tímann. Í þau skipti sem við náðum að stoppa í fyrri hálfleik tóku þeir oftast sóknarfrákast. Við vorum í miklu basli í frákastabaráttunni. Við spiluðum oft á tíðum ágætis vörn en það vantaði að klára það með frákasti. Við gáfum þeim alltof mörg auka tækifæri,“ sagði Finnur Freyr Stefánsson, aðstoðarþjálfari íslenska karlalandsliðsins í körfubolta, eftir 20 stiga tap fyrir Tékklandi, 89-69, í kvöld. Þetta var fyrsti leikur Íslands í undankeppni HM 2019.

Leikmenn Íslands, fyrir utan Kára Jónsson, voru ískaldir fyrir utan þriggja stiga línuna í leiknum.

„Við klikkuðum oftar en ekki á stemmningsþristum. Við bjuggum okkur til fín færi fyrir utan en öll stemmningsskotin klikkuðu,“ sagði Finnur en þriggja stiga nýting Íslands var aðeins 16,7%.

Haukur Helgi Pálsson, sem skoraði ekki stig í og klikkaði á öllum átta skotunum sínum, meiddist á öxl í leiknum.

„Hann fékk högg á öxlina og átti erfitt með að skjóta boltanum. Þegar munurinn var orðinn mikill ákváðum við að kippa honum út af og hvíla hann,“ sagði Finnur en nánar verður rætt við hann í Fréttablaðinu á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×