Erlent

Heita því að komast að því hvað varð um argentínska kafbátinn

Kjartan Kjartansson skrifar
Leit stendur enn yfir að kafbátnum í sunnanverðu Atlantshafi en hún hefur engan árangur borið fram að þessu.
Leit stendur enn yfir að kafbátnum í sunnanverðu Atlantshafi en hún hefur engan árangur borið fram að þessu. Vísir/AFP
Forseti Argentínu hefur lofað rannsókn á afdrifum kafbáts sem hvarf fyrir níu dögum og að komist verði að því sanna um afdrif hans. Fjörutíu og fjórir sjóliðar voru um borð í kafbátnum en fjöldi þjóða hefur lagt argentínskum yfirvöldum lið við leitina að honum.

Ekkert hefur spurst til kafbátsins ARA San Juan frá 15. nóvember. Þá tilkynnti áhöfn hans um rafmagnsbilun í hefðbundnum leiðangri nærri syðsta odda Suður-Ameríku. Áhöfninni var skipað að stefna strax á flotastöðina í Mar del Plata. Þangað skilaði kafbáturinn sér hins vegar aldrei.

Síðan þá hefur leit staðið yfir að kafbátnum og hafa fleiri en tólf ríki aðstoðað við hana, þar á meðal bandaríski sjóherinn, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC. Vonir um að áhöfnin finnist á lífi dvínuðu hins vegar eftir að vísbendingar komur fram um sprengingu nærri síðustu þekktu staðsetningu kafbátsins.

„Þetta krefst alvarlegrar, djúprar rannsóknar sem leiðir í ljós staðreyndir um hvers vegna við eru að upplifa þetta og hvað gerðist. Markmið mitt er sannleikurinn,“ segir Mauricio Macri, forseti Argentínu, sem hefur hvatt landa sína til að leita ekki að sökudólgum þar sem staðreyndir málsins liggja fyrir.

Kafbáturinn er 34 ára gamall en Macri fullyrðir að hann hafi nýlega verið gerður upp og að hann hafi verið í „fullkomu ástandi“.

Aðstandendur áhafnarinnar telja sig hins vegar illa svikna. Yfirvöld hafi leitt þá á asnaeyrunum.

„Þeir hafa leikið sér með okkur! Þeir lugu að okkur!“ segir Itatí Leguizamón, eiginkona eins sjóliðans sem var um borð í bátnum.


Tengdar fréttir

Rússar aðstoða við leitina

Rússar hafa nú slegist í hóp þeirra ríkja sem aðstoða Argentíumenn við að finna kafbátinn sem týndist undan ströndum landsins fyrir viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×