Innlent

Ekki vitað hversu margir fóru um göngin

Sigurður Mikael Jónsson skrifar
Norðfjarðargöng þykja hafa sannað gildi sitt nú þegar en umferðartölur um þau liggja ekki fyrir.
Norðfjarðargöng þykja hafa sannað gildi sitt nú þegar en umferðartölur um þau liggja ekki fyrir.
Vegna hugsanlegrar bilunar í sjálfvirkum talningarbúnaði Vegagerðarinnar við hin nýju Norðfjarðargöng er ekki vitað hversu margar bifreiðar hafa farið um göngin frá því að þau voru opnuð þann 11. nóvember síðastliðinn. Komið var upp öðrum teljara en lesa þarf af honum handvirkt og komast starfsmenn ekki til að lesa af honum sökum veðurs.

Friðleifur Ingi Brynjarsson, verkefnastjóri hjá Vegagerðinni, segir að vegna hinnar hugsanlegu bilunar sé ekki hægt að afhenda rauntímagögn um umferð um Norðfjarðargöng. Skömmu eftir að göngin voru opnuð hafi umferðardeildin komið upp öðrum teljara.

„Sá galli er á að það þarf að fara á staðinn og tappa af honum handvirkt. Þessi aftöppun er á hendi sérhæfðra starfsmanna Vegagerðarinnar og er næsti starfsmaður staðsettur á Akureyri,“ segir Friðleifur í svari við fyrirspurn Fréttablaðsins um umferð fyrstu daga ganganna. Hann segir næsta skipulagða aflestur teljarans hafa verið um áramótin en sökum veðurs og ófærðar sé ekki fært að veita upplýsingarnar fyrr en í fyrsta lagi eftir helgi.

Þeir sem til þekkja segja þó að göngin hafi þegar sannað gildi sitt þessa fyrstu daga, í aftakaveðri eða ófærð, og í það minnsta haldið samgöngum opnum milli Eskifjarðar og Norðfjarðar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×