Erlent

Mnangagwa lofar að þjóna öllum

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Emmerson Mnangagwa, nýr forseti Simbabve.
Emmerson Mnangagwa, nýr forseti Simbabve. Nordicphotos/AFP
Emmerson Mnangagwa var settur í embætti forseta Simb­abve í gær. Tók hann þar með formlega við af Robert Mugabe sem sagði af sér fyrr í vikunni eftir að herinn hneppti hann í stofufangelsi og tók völdin í landinu. Mugabe hafði ríkt alla lýðveldissögu ríkisins.

Hinn nýi forseti sagði í innsetningarræðu sinni að hann liti á Mugabe sem læriföður sinn. Mnang­agwa hafði verið varaforseti Simb­abve þar til Mugabe rak hann úr embætti á dögunum, líklegast til þess að styrkja stöðu forsetafrúarinnar Grace Mugabe í baráttunni um forsetastólinn.

Lofaði Mnangagwa Mugabe í bak og fyrir í ræðunni þrátt fyrir það. „Hann leiddi okkur í sjálfstæðisbaráttunni og axlaði ábyrgð á afar erfiðum tímum. Fyrir mér er hann eins og faðir, lærifaðir, félagi og leiðtogi.“

Þá lofaði hann að verða forseti allra Simbabvemanna. „Ég verð að þjóna öllum ríkisborgurum, burtséð frá litarhætti, trú, ættbálki eða skoðunum.“

Mnangagwa, oft kallaður „krókódíllinn“ vegna miskunnarleysis og kænsku, er þó enginn nýgræðingur þegar kemur að stjórnmálum. Hann hefur verið í ríkisstjórn eða á þingi í 37 ár, allt frá því Simbabve varð lýðveldi.

Í umfjöllun BBC er Mnang­agwa sagður tengjast verstu ódæðisverkum Mugabe-stjórnarinnar. Fór hann meðal annars fyrir njósnadeild ríkisstjórnarinnar á níunda áratugnum og átti sinn þátt í að þúsundir almennra borgara voru drepnar. Hann hefur þó sjálfur neitað þeim ásökunum og sagt herinn einan hafa staðið að árásunum. 


Tengdar fréttir

Nærri fjörutíu ára valdaskeið nú á enda

Robert Mugabe sagði af sér simbabveska forsetaembættinu í gær. Afsagnarbréf hans var óvænt lesið upp á þingfundi þar sem rætt var um embættissviptingartillögu á hendur honum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×