Erlent

Þyngdu dóminn yfir Oscar Pistorius

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Oscar Pistorius var dæmdur í 15 ára fangelsi.
Oscar Pistorius var dæmdur í 15 ára fangelsi. Nordicphotos/Getty
Áfrýjunardómstóll í suðurafrísku borginni Bloemfontein þyngdi í gær dóm yfir ólympíufaranum Oscar Pistorius. Var Pist­orius dæmdur í fimmtán ára fangelsi fyrir morðið á kærustu sinni, Reevu Steenkamp. Áður hafði hann verið dæmdur í sex ára fangelsi fyrir glæpinn.

Saksóknarar héldu því fram að sex ára fangelsisdómur væri „hneykslanlega vægur“ og féllst áfrýjunardómstóllinn á það. „Fjölskyldunni finnst réttlætinu nú fullnægt. Reeva getur nú hvílt í friði,“ sagði Tania Koen, lögmaður Steenkamp-fjölskyldunnar, við AP í gær.

„Fólk heldur að þetta séu einhverjar málalyktir fyrir fjölskylduna. Staðreyndin er sú að þau eru enn að kljást við þennan missi á hverjum einasta degi,“ sagði Koen enn fremur.

Carl Pistorius, bróðir hins sakfellda, tjáði sig um dóminn á Twitter.­ Sagðist hann eyðilagður yfir ákvörðuninni. „Við urðum öll fyrir miklum missi. Andlát Reevu var, og er enn, mikið áfall fyrir okkar fjölskyldu líka.“

Pistorius skaut Steenkamp fjórum sinnum í gegnum læstar baðherbergisdyr á heimili sínu í Pretoríu á Valentínusardag árið 2013 með þeim afleiðingum að Steenkamp lést. Sjálfur hefur hann haldið því fram að hann hafi talið að Steenkamp væri innbrotsþjófur. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×