Erlent

Skaut nágrannakonuna til bana í stað dádýrs

Kjartan Kjartansson skrifar
Nágranninn skaut konuna með skammbyssu sem má nota við veiðar á dádýrum.
Nágranninn skaut konuna með skammbyssu sem má nota við veiðar á dádýrum. Vísir/AFP
Ekki liggur fyrir hvort að bandarískur maður sem skaut nágrannakonu sína til bana í bakgarðinum þeirra verðir ákærður fyrir glæp. Maðurinn segist hafa talið að hann væri að skjóta á dádýr.

Atvikið átti sér stað bænum Sherman í New York-ríki í Bandaríkjunum á miðvikudag, daginn fyrir þakkargjörðarhátíðina. Rosemary Billquist hafði farið út að viðra hundana sína tvo en þegar hundarnir komu einir geltandi til baka grunaði Jamie, eiginmann hennar, að ekki væri allt með felldu, að því er kemur fram í frétt Washington Post.

Skömmu síðar komu sjúkrabílar á staðinn og kom þá í ljós að Rosemary hefði orðið fyrir byssuskoti. Hún var úrskurðuð látin við komuna á sjúkrahús.

Nágranni þeirra, Thomas Jadlowski, skaut Billquist. Hann segist hafa talið sig hafa séð dádýr á enginu fyrir aftan hús þeirra. Það hafi verið í um 180 metra fjarlægð. Þegar hann heyrði öskur gerði hann sér grein fyrir að hann hefði skotið manneskju. Hljóp hann að konunni og hélt þrýstingi að sári hennar þar til sjúkraliðar komu á staðinn.

Jadlowski hefur ekki verið ákærður og er sagður hafa verið samvinnuþýður við lögreglu. Saksóknari í Chautauqua-sýslu mun fara yfir mál hans og ákveða hvort hann verði ákærður fyrir saknæmt athæfi. Atvikið átti sér stað innan við klukkustund eftir sólsetur en þá er ólöglegt að veiða.

Eins og gefur að skilja á Jamie Billquist erfitt með að sætta sig við skyndilegt fráfall eiginkonu sinnar og efast um frásögn Jadlowski.

„Hann á að hafa verið í 180 metra fjarlægð. Hann hélt að þetta væri dádýr sem mér finnst erfitt að trúa. Ef þú veist ekki hvað þetta er, hvers vegna að skjóta?“ segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×