Innlent

Vímaður ökumaður hlaupinn uppi eftir bílaeltingarleik

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Fangageymslur á höfuðborgarsvæðinu eru nær fullar eftir nóttina.
Fangageymslur á höfuðborgarsvæðinu eru nær fullar eftir nóttina. Vísir/Eyþór
Um klukkan 4:20 í nótt hugðust lögreglumenn stöðva bifreið sem var ekið gegn rauðu ljósi. Ökumaður sinnti ekki stöðvunarmerkjum lögreglu og því hófst eftirför á miklum hraða, að því er fram kemur  í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

„Ökumaður ók á miklum hraða Kringlumýrarbraut að Sæbraut og áfram til austurs. Inn á Miklubraut til vesturs að Kringlumýrarbraut og áfram Kringlumýrarbrautina að Sæbraut. Loks fór ökumaður vestur Sæbraut að Hörpu,“ segir í dagbók lögreglu.

Þegar að Hörpu var komið stöðvaði ökumaður bifreiðina og tók á rás á tveimur jafnfljótum en lögreglumenn hlupu manninn uppi.

Ökumaðurinn ók enn fremur ítrekað gegn rauðu ljósi meðan á bílaeltingarleiknum stóð og hraði bifreiðarinnar var jafnframt mjög mikill. Þá er ökumaður grunaður um að hafa verið undir áhrifum áfengis, fíkniefna og að aka sviptur ökuréttindum.

Tæplega 60 mál á borð lögreglu í nótt

Tvær minniháttar líkamsárásir komu upp í miðborginni í nótt. Einhverjir voru handteknir í báðum tilfellum og gista nú fangageymslu vegna rannsóknar málanna. Klukkan 00:46 var bifreið mæld á 134 km hraða á Reykjanesbraut og hlaut ökumaður sekt fyrir brotið.

Þá varð minniháttar umferðaróhapp í Skógarseli um klukkan 23:30 í gærkvöldi og einn handtekinn í grunaður um akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna vegna málsins.

Í dagbók lögreglu kemur fram að tæplega 60 mál hafi komið inn á borð lögreglu í nótt. Fangageymslur eru nú svo til fullar en þeir sem þar sitja tengjast flestir líkamsárásum og ölvum, segir í dagbókinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×