Íslenski boltinn

Spilað á meðan HM stendur og bikarúrslitaleikurinn færður

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Valur er ríkjandi Íslandsmeistari í Pepsi-deild karla.
Valur er ríkjandi Íslandsmeistari í Pepsi-deild karla. vísir/anton brink
Á fundi KSÍ með formönnum og framkvæmdastjórum félaga hér á landi tilkynnti Birkir Sveinsson, mótastjóri KSÍ, hugmyndir mótanefndar að leikdögum í Pepsi-deild karla sem og bikarkeppni karla næsta sumar.

Þátttaka Íslands á HM í Rússlandi mun hugsanlega hafa minni áhrif á Pepsi-deild karla en EM í Frakklandi gerði sumarið 2016, en þá var að mestu gert hlé á deildinni á meðan þátttöku Íslands í keppninni stóð ytra.

Birkir sagði í samtali við Vísi í morgun að stefnt væri að því að draga úr leikjamagni á meðan HM í Rússlandi stendur en þó ekki gert hlé á deildinni.

Hins vegar verði það þannig að þau lið sem spila í Evrópukeppnum félagsliða - Valur, Stjarnan, FH og ÍBV - verði stillt upp í töfluröðinni þannig að þau spili innbyrðis einn leik á meðan riðlakeppni HM í Rússlandi stendur. Með því fá þau betra svigrúm til að einbeita sér að Evrópuleikjum sínum þegar að þeim kemur.

Þá liggur fyrir að færa verður bikarúrslitaleik karla aftur í september en það er gert vegna breyting á leikjadagatali í áðurnefndum Evrópukeppnum. Ekkert hlé er lengur á henni í ágúst sem hefur þessar afleiðingar. Sem stendur er gert ráð fyrir bikarúrslitaleikurinn verði 15. september, eða til vara þann 6. október.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×