Fótbolti

Tveggja mánaða bið á enda hjá Bale á morgun

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gareth Bale fagnar marki sínu í síðasta leik hans í búningi Real Madrid sem var í lok september.
Gareth Bale fagnar marki sínu í síðasta leik hans í búningi Real Madrid sem var í lok september. Vísir/Getty
Gareth Bale er loksins orðinn góður af meiðslunum og mun spila með Real Madrid í spænska bikarnum á morgun. Zinedine Zidane staðfesti þetta á blaðamannafundi í dag.

Gareth Bale hefur verið að glíma við kálfameiðsli síðustu vikurnar en þar á undan var hann tognaður aftan í læri.

Bale mun spila með Real Madrid í bikarleik á móti C-deildarliðinu  Fuenlebrada.

Hinn 28 ára gamli Bale spilaði síðast með Real Madrid í 3-1 sigri á Borussia Dortmund  26. september síðastliðinn. Hann var þá bæði með glæsilegt mark og stoðsendingu.

„Hugmyndin er að hann spili á morgun og hann lítur vel út,“ sagði Zinedine Zidane á blaðamannafundi í dag.

Gareth Bale missti ekki aðeins af leikjum Real Madrid heldur gat hann ekki spilað í síðustu leikjum Wales í undankeppni HM. Wales missti þarf af lestinni á lokasprettinum og munaði þar mikið um Bale.

Gareth Bale hefur ekki spilað eina einustu mínútu með þeim Cristiano Ronaldo og Karim Benzema á þessu tímabili. Annaðhvort meiðsli eða leikbönn hafa séð til þess.

„Ég vil sjá þá Gareth, Cristiano og Karim aftur saman. Það er langt síðan að þeir léku saman inn á vellinum,“ sagði Zinedine Zidane.

Gareth Bale er mikill styrkur fyrir Real Madrid en hann hefur skorað 70 mörk í 159 leikjum með liðinu en spænska liðið hefur þrisvar sinnum unnið Meistaradeildina á fjórum tímabilum hans á Santiago Bernabeu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×