Fótbolti

Björn Bergmann bestur í norsku deildinni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Björn Bergmann var þriðji markahæsti leikmaður norsku úrvalsdeildarinnar.
Björn Bergmann var þriðji markahæsti leikmaður norsku úrvalsdeildarinnar. vísir/ernir
Björn Bergmann Sigurðarson, leikmaður Molde, var besti leikmaður norsku úrvalsdeildarinnar á nýafstöðnu tímabili samkvæmt tölfræðisíðunni WhoScored.com. Skagamaðurinn var jafnframt í liði ársins.

Björn Bergmann átti frábært tímabil með Molde. Hann skoraði 16 mörk og var þriðji markahæsti leikmaður norsku deildarinnar.

Björn Bergmann fékk 7,44 í meðaleinkunn hjá WhoScored fyrir frammistöðu sína á tímabilinu.

Skagamaðurinn var rétt fyrir ofan samherja sinn hjá Molde, Babacar Sarr, í einkunnagjöf WhoScored. Sarr, sem lék áður með Selfossi hér á landi, fékk 7,43 í meðaleinkunn fyrir frammistöðu sína á tímabilinu.

Björn Bergmann og Sarr eru vitaskuld báðir í úrvalsliði WhoScored. Meistarar Rosenborg eiga fjóra fulltrúa í því, Molde og Strömsgodset tvo og Brann, Sarpsborg og Aalesund einn hver.

Björn Bergmann er einn fjögurra sem kemur til greina sem besti leikmaður norsku deildarinnar. Hinir eru Rosenborg-mennirnir Nicklas Bendnter og Tore Reginiussen og Ohi Omoijuanfo, leikmaður Stabæk.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×