Innlent

Þykknar upp og hlýnar

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Það var víða mikið frost í nótt.
Það var víða mikið frost í nótt. Vísir/Vilhelm

Eftir bjarta og kalda nótt með talsverðu frosti, einkum inn til landsins, lítur út fyrir að þykkni upp og fari að hlýna síðar í dag að sögn veðurfræðings Veðurstofu Íslands.

Gert er ráð fyrir hægri vestlægri eða breytilegri átt í dag og að víða verði léttskýjað. Þó megi búast við dálítilli él við norðurströndina. Frostið verður á bilinu 4 til 16 stig og verður kaldast í innsveitum.

Á Suðusturlandi verður norðvestan 8 til 13 m/s síðdegis í dag en annars staðar verður hægari vindur. Þá mun þykkna upp á Vesturlandi þegar líða fer á daginn og verður það til þess að draga úr frosti.

Það má búst við súld með köflum á morgun og vestan 3 til 10 m/s. Áfram verður dálítil él fyrir norðan en annars bjartviðri. Hiti verður á bilinu 0 til 5 stig.

Bætir síðan áfram í vind og vætu þegar líður að helgi og hlýnar enn.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á miðvikudag:
Vestlæg átt, 3-10 m/s og dálítil él N-lands, skýjað annars staðar og úrkomulítið, en bjartviðri SA-til. Frost 0 til 5 stig A-lands, en annars kringum frostmark.

Á fimmtudag:
Suðvestan 8-15 m/s og súld með köflum V-lands, hvassast NV-til, en heldur hægara og bjartviðri eystra. Hiti 2 til 7 stig.

Á föstudag:
Suðvestan 10-15 m/s og víða rigning eða súld, en hægara þurrt NA-lands. Hiti 4 til 9 stig.

Á laugardag og sunnudag:
Útlit fyrir ákveðna vestanátt með skúrum eða slydduéljum, en úrkomulítið fyrir austan og kólnar í veðri.

Á mánudag:
Snýst líklega á norðanátt með éljum víða á landinu, en úrkomuminna syðra. Svalt í veðri.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.