Körfubolti

Einn besti körfuboltamaður landsins í mínus í framlagi í leikjunum tveimur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Haukur Helgi Pálsson.
Haukur Helgi Pálsson. Vísir/Getty
Íslenska körfuboltalandsliðið tapaði tveimur fyrstu leikjum sínum í undankeppni HM 2019, fyrst úti á móti Tékkum og svo naumlega á móti Búlgörum í gærkvöldi.

Íslenska liðið var án lykilmanna eins og Jóns Arnórs Stefánssonar og Harðar Axels Vilhjálmssonar í leikjunum og svo var það frammistaða Hauks Helga Pálssonar í þessum tveimur leikjum.

Einn besti körfuboltamaður landsins náði sér engan vegin á strik í þessum tveimur tapleikjum og munaði heldur betur um það. Haukur harkaði að sér og spilaði í gegnum meiðslin. Hann er lykilmaður í liði sem var án lykilmanna en hversu mikið hjálpaði hann liðinu?

Það fór ekkert framhjá neinum að Haukur Helgi var að spila meiddur og hægt að setja stórt spurningarmerki við það af hverju þjálfararnir létu hann spila svona mikið þegar ljóst var að hann var ekki að ná sér að strik.

Þegar upp var staðið frá þessum tveimur leikjum þá hafði Haukur Helgi aðeins nýtt 1 af 15 skotum sínum í leikjunum sem gerir aðeins tæplega sjö prósent skotnýtingu. Hann tapaði auk þess átta boltum þar af sjö þeirra í þriggja stiga tapi á móti Búlgörum í gær.

Haukur Helgi klikkaði á öllum sjö tveggja stiga skotum sínum í leikjunum tveimur og sex af níu stigum hans komu af vítalínunni.

Haukur var með samtals 9 stig, 6 fráköst og 4 stoðsendingar á 64 mínútum í þessum tveimur leikjum og heildarframlag hans var -1. Íslenska liðið tapaði með 31 stigi þær mínútur sem hann spilaði en vann með sjö stigum þegar hann sat á bekknum.

Haukur Helgi var því bæði í mínus í framlagi sem og í plús og mínus sem er útreikningur á gengi liðsins þegar leikmaður er inn á vellinum.

Frammistaða Hauks Helga Pálssonar í leikjunum við Tékkland og Búlgaríu:

69-89 tap á móti Tékklandi: 0 stig, , 3 fráköst, 1 stoðsending, 1 tapaður, hitti úr 0 af 8 skotum, -3 í framlagi

74-77 tap á móti Búlgaríu: 9 stig, 3 fráköst, 3 stoðsendingar, 7 tapaðir, hitti úr 1 af 7 skotum, 2 í framlagi




Fleiri fréttir

Sjá meira


×