Viðskipti innlent

Icelandair semur við Statoil

Haraldur Guðmundsson skrifar
Björgólfur Jóhansson er forstjóri Icelandair.
Björgólfur Jóhansson er forstjóri Icelandair. Vísir/GVA
Icelandair hefur samið við norska olíufélagið Statoil um milliliðalaus kaup á flugvélaeldsneyti fyrir flota fyrirtækisins. Samningurinn er til eins árs og mun taka gildi um næstu áramót eða þegar samkomulag flugfélagsins um kaup á eldsneyti af Skeljungi rennur út.

Samkvæmt upplýsingum frá Icelandair var þar ráðist í verðkönnun og mun Olís sinna ráðgjafarhlutverki við innflutning og dreifingu eldsneytisins. Samningurinn við Skeljung var til eins árs eins og samkomulag olíufélagsins við WOW air sem rennur einnig út um áramótin.

Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi WOW air, segir í skriflegu svari við fyrirspurn Markaðarins að fyrirtækið hafi farið með sín eldsneytiskaup í útboð. Ekki sé búið að ganga frá samningum en viðræður standi yfir við tvö fyrirtæki. Nýr samningur muni gilda í eitt ár. Samkvæmt heimildum blaðsins er N1 annað þeirra fyrirtækja sem flugfélagið á í viðræðum við.

Fréttin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og fjármál.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×