Körfubolti

Trygg(v)ir ekki eftir á

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tryggvi Snær Hlinason sækir að körfu Búlgara í Höllinni á mánudagskvöldið. Hann hitti úr öllum skotum sínum í leiknum.
Tryggvi Snær Hlinason sækir að körfu Búlgara í Höllinni á mánudagskvöldið. Hann hitti úr öllum skotum sínum í leiknum. vísir/anton
„Þetta verður erfið nótt,“ sagði Martin Hermannsson í samtali við íþróttadeild eftir tap á móti Búlgaríu í Höllinni á mánudagskvöldið.

Martin hafði gert sitt í leiknum og íslenska liðið var búið að koma sér í stöðu til að landa dýrmætum sigri. Niðurstaðan varð hins vegar annað tapið á fjórum dögum og neðsta sæti riðilsins.

Ísland hefur komist á tvö Eurobasket-mót í röð og var á heimavelli á móti þjóð sem hefur ekki komist á Eurobasket í sex ár.

Það er hægt að kvarta yfir úrslitunum enda alltaf slæmt að byrja undankeppni á tveimur tapleikjum en það er engu að síður hægt að gleðjast yfir því að tveir ungir leikmenn verða alltaf betri og betri í hvert skipti sem við sjáum þá í landsliðstreyjunni.

Martin frábær í báðum leikjum

Martin Hermannsson var yfirburðamaður í íslenska liðinu þegar við tökum þessa tvo leiki saman. Hann hefur tekið yfir hlutverk Jóns Arnórs Stefánssonar sem burðarás liðsins. Martin var með 25 stig að meðaltali og 58 prósenta skotnýtingu í leikjunum tveimur. Það er ekkert skrýtið að hann hafi verið svekktur því hann gerði svo sannarlega sitt til að liðið ynni leikinn.

Tryggvi Snær Hlinason sýndi líka með 6 vörðum skotum, 6 fráköstum, 6 stigum og 3 stoðsendingum á 22 mínútum að þar fer framtíðarhetja íslenska liðsins.

Margir sáu Hauk Helga Pálsson taka við af Jóni Arnóri Stefánssyni en hann spilaði meiddur í þessum tveimur leikjum og var að spila alltof mikið þegar það var löngu ljóst að hann var ekki í leikhæfu ástandi.

Reynsluboltarnir Hlynur Bæringsson og Jakob Sigurðarson hjálpuðu liðinu mikið og eru ómetanlegur styrkur fyrir unga leikmenn liðsins.

Það er jákvætt að ungir leikmenn fengu tækifærið í þessum leikjum en það er líka áhyggjuefni þegar þjálfarinn treystir þeim ekki á úrslitastundu.

Búlgarar þakka honum örugglega fyrir það að geyma Tryggva Snæ Hlinason löngum stundum á bekknum í síðari hálfleik.

Hversu mikil framtíð er í því?

Það er spurning hversu mikil framtíð er í þjálfara sem vill ekki nota framtíðarlykilmann liðsins eða í það minnsta er alltof oft upptekinn við að finna ástæður til að spila ekki Tryggva frekar en öfugt. Liðið er nú búið að falla á nokkrum mikilvægum prófum í röð og tapleikirnir eru nú orðnir tíu í röð.

Eitt stórt vandamál er þó meðferð hans á miðherjanum Tryggva Snæ Hlinasyni. Leikmanni sem hann þarf að laga leik liðsins að en ekki öfugt. Craig og aðstoðarmenn hans skrifuðu mínútuleysi Tryggva á hans eigin frammistöðu. Þeir voru samt með meiddan mann í algjöru tjóni inn á á sama tíma.

Óslípaður demantur

Craig er með óslípaðan demant í höndunum. Leikmann sem flestir landsliðsþjálfarar Íslands á síðustu árum hefðu gefið mikið til að hafa. Leikmann sem er betri í hvert skipti sem þú sérð hann spila. Hversu augljósara getur þetta verið?

Tryggvi spilaði líka alltof lítið á EM síðasta haust og nú er bara komin upp sú staða að liðið þarf að laga sinn leik að honum en ekki öfugt.

Tryggvi er frábær sendingamaður sem hefur allt til alls til að fá mínútur og fá boltann oft í sókninni. Hann gerir sín mistök í vörninni en það gera nú fleiri.

Á alltaf að vera aðalmaðurinn

Ekki var álagið að plaga strákinn enda var hann ekki með í fyrri leiknum. Ekkert nema villuvandræði áttu að halda honum á bekknum en þjálfarinn frystir hann og gagnrýnir hann fyrir að Búlgarar hafi átt of auðvelt með að skora á hann.

Martin er maðurinn, Tryggvi á að vera maðurinn og ungir frískir leikmenn eins og Kristófer Acox og Kári Jónsson verða í lykilhlutverkum næsta áratuginn. Það er því hægt að horfa jákvætt fram á veginn en við tryggjum ekki eftir á. Þjálfarinn þarf að setja Tryggva í fyrsta sætið og það strax. Hann er með framtíð íslenska landsliðsins í höndunum.

Tryggvi treður yfir varnarmann Búlgaríu.vísir/anton

Tengdar fréttir

Fannar: Stór mistök að hafa Tryggva ekki inn á undir lokin

Fannar Ólafsson, fyrrverandi landsliðsmiðherji og sérfræðingur Domino's Körfuboltakvölds á Stöð 2 Sport, skilur ekki af hverju Tryggvi Snær Hlinason var ekki inn á hjá íslenska landsliðinu undir lok leiksins gegn Búlgaríu í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×