Golf

Tiger: Mér líður frábærlega

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Tiger á Bahamas-mótinu í fyrra. Endurkoman gengur vonandi betur núna.
Tiger á Bahamas-mótinu í fyrra. Endurkoman gengur vonandi betur núna. vísir/getty
Það er bjart yfir Tiger Woods degi áður en hann reynir enn eina endurkomuna í golfheiminn. Það er tæpt ár síðan hann spilaði síðast.

Hinn 41 árs gamli Tiger fór í enn eina bakaðgerðina í apríl síðastliðnum og segir að hann sé loksins orðinn góður í bakinu. Hvort það endist eitthvað á svo eftir að koma í ljós.

„Þessi aðgerð snérist um lífsgæði. Það var lítið um þau þar sem ég lá upp í rúmi í næstum tvö ár. Mér líður frábærlega, ég sakna þess að spila golf og það hefur ekki gerst í tvö ár,“ sagði Tiger sem hefur leik á Bahamas á morgun í móti sem hann stendur sjálfur fyrir.

Hann hafði verið frá í 15 mánuði er hann snéri til baka í fyrra á þetta sama mót. Þremur mánuðum síðar var hann meiddur á ný.

„Það sem er best fyrir mig er að geta gripið í kylfu er ég fer fram úr rúminu og þarf ekki að nota hana sem hækju. Ég er afar þakklátur að hafa náð svona góðri heilsu aftur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×