Íslenski boltinn

Kristinn Freyr velur á milli FH og Vals

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Kristinn Freyr Sigurðsson fer aftur í rautt á Hlíðarenda eða í hvítt og svart í Hafnarfirði.
Kristinn Freyr Sigurðsson fer aftur í rautt á Hlíðarenda eða í hvítt og svart í Hafnarfirði. vísir/stefán
Kristinn Freyr Sigurðsson, besti leikmaður Pepsi-deildar karla árið 2016, fer annað hvort í Val eða FH, samkvæmt heimildum Vísis. Hann er með tilboð í höndunum frá báðum félögum, samkvæmt heimildum, og stendur valið því á milli þessara tveggja risa í íslenska boltanum.

Íþróttadeild 365 var áður búin að segja frá því að Kristinn Freyr væri á heimleið en hann hefur verið að æfa með Val að undanförnu. Þar sló hann rækilega í gegn sumarið 2016 er hann skoraði 16 mörk af miðjunni og var kjörinn besti leikmaður Íslandsmótsins það tímabilið.

Hann gekk í raðir Vals frá Fjölni árið 2012 og var bikarmeistari með Hlíðarendafélaginu árin 2015 og 2016 en eftir síðustu leiktíð fór hann til Sundsvall í sænsku úrvalsdeildinni. Hann er nú að koma heim eftir eitt ár í atvinnumennskunni þar í landi.

FH-ingar hafa verið stórtækir á félagaskiptamarkaðnum og eru nú þegar búnir að landa þremur leikmönnum sem eru að koma heim frá Norðurlöndum. Það eru þeir Hjörtur Logi Valgarðarsson, Guðmundur Kristjánsson og nú síðast Kristinn Steindórsson. Þá samdi liðið einnig við framherjann magnaða Geoffrey Castillion sem sló í gegn með Víkingi á síðustu leiktíð.

Íslandsmeistarar Vals hafa verið tiltölulega rólegir á markaðnum í vetur en þeir eru búnir að semja við Ólaf Karl Finsen sem kom frá Stjörnunni og Ívar Örn Jónsson sem gekk í raðir Valsmanna frá Víkingi.


Tengdar fréttir

Kristinn Freyr á heimleið

Besti leikmaður Pepsi-deildar karla 2016, Kristinn Freyr Sigurðsson, er á heimleið eftir stutta dvöl í atvinnumennsku. Þetta kom fram í Sportpakkanum á Stöð 2 í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×