Viðskipti erlent

Apple flýtir sér að lagfæra vandræðalegan öryggisgalla

Kjartan Kjartansson skrifar
Gallinn leynist í nýjustu útgáfu MacOs High Sierra-stýrikerfis Apple.
Gallinn leynist í nýjustu útgáfu MacOs High Sierra-stýrikerfis Apple. Vísir/AFP
Meiriháttar öryggisgalli hefur fundist í nýjustu útgáfu stýrikerfis Apple fyrir Mac-tölvur. Gallinn gerir hverjum sem er kleift að fá rótaraðgang að tölvu án þess að vita lykilorðið. Apple segist vinna að uppfærslu til að greiða úr gallanum.

Tyrkneskur tölvunarfræðingur greindi frá gallanum í MacOs High Sierra-stýrikerfinu. Með því að skrifa notendanafnið „root“, skilja eftir lykilorðsreitinn auðan og ýta nokkrum sinnum á vendihnappinn var hægt að fá óheftan aðgang að tölvunni,  að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Tölvuöryggissérfræðingar lýsa gallanum sem „glappaskoti“ og „vandræðalegum“. Þeir sem hafa rótaraðgang geta til að mynda breytt gögnum á svæði annarra notenda á tölvunni og jafnvel eytt kerfislega mikilvægum skrám þannig að tölvan verði óvirk.

Almennt séð hefur gallinn aðeins áhrif ef einhver kemst beint í tölvuna. Til að forðast möguleikann á að einhver nýti sér gallann hvetur Apple viðskiptavini sína til að búa til lykilorð fyrir rótaraðgang fyrir tölvur sínar á meðan unnið er að lausn.


Tengdar fréttir

Stóraukið upplýsingaöryggi í nýjum iPhone

Upplýsingaöryggi mun stóraukast með andlitsskönnum sem nú hafa verið innleiddir í farsíma. Tæknina verður að finna í nýjustu kynslóð iPhone sem hugbúnaðarrisinn Apple kynnti í gær.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×