Erlent

Bandaríkjamenn heita því að tortíma stjórn Norður Kóreu komi til stríðs

Birgir Olgeirsson skrifar
Nikki Haley á neyðarfundi öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.
Nikki Haley á neyðarfundi öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Vísir/Getty
Norður kóresku stjórninni verður algjörlega tortímt komi til stríðs. Þetta sagði fulltrúi Bandaríkjamanna á neyðarfundi öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna í dag.

Boðað var til fundarins eftir að yfirvöld í Norður Kóreu skutu flugskeyti á loft í gær. Var þetta fyrsta eldflaugaskot Norður Kóreu í rúma tvo mánuði en á vef Reuters kemur fram að eftir þetta tilraunaskot búi Norður Kórea fræðilega séð yfir tækni til að skjóta eldflaug á meginland Bandaríkjanna.

„Ef það kemur til stríðs, verið þá ekki í nokkrum vafa um að stjórn Norður Kóreu verður algjörlega tortímt,“ sagði Nikki Haley, fulltrúi Bandaríkjanna í öryggisráðinu.

Haley greindi frá því að Bandaríkjamenn hefðu farið fram á við yfirvöld í Kína að þau hætti að veita Norður Kóreu olíu. Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, ræddi við forseta Kína, Xi Jinping, fyrr í dag.

„Við höfum aldrei sóst eftir stríði við Norður Kóreu, og gerum það ekki í dag,“ sagði Haley en bætti við að ef að kemur til stríðs þá verði það vegna hegðunar yfirvalda í Norður Kóreu.

Tekið er fram á vef Reuters að stjórn Donalds Trump hafi ítrekað haldið því fram að allt komi til greina þegar kemur að því að eiga við Norður Kóreu, þar á meðal hernaðaraðgerðir, en stjórnin kjósi þó að leysa málið friðsamlega.


Tengdar fréttir

Trump um eldflaugaskot N-Kóreu: „Við sjáum um þetta“

"Við sjáum um þetta,“ sagði Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, við blaðamenn í Hvíta Húsinu í dag eftir að Norður-Kórea skaut á loft eldflaug fyrr í dag. Þetta var fyrsta eldflaugaskot Norður-Kóreu

Efasemdir þrátt fyrir hátíðlegar yfirlýsingar

Norður-Kóresk stjórnvöld fagna því sem þau segja hafa verið fullkomið tilraunaskot á nýrri tegund eldflauga, eldflauga sem geta hæft hvern einasta fermetra í Bandaríkjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×