Innlent

Segir það skýrast í dag hvort Vinstri græn, Framsókn og Sjálfstæðisflokkur hefji formlegar viðræður

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, kemur til þingflokksfundar í morgun.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, kemur til þingflokksfundar í morgun. vísir/eyþór
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, segir að það skýrist í dag hvort að Framsókn, Vinstri græn og Sjálfstæðisflokkur fari í formlegar stjórnarmyndunarviðræður.

Þetta sagði hann í samtali við Heimi Má Pétursson, fréttamann Stöðvar 2, í þinghúsinu nú á tíunda tímanum þegar hann kom til þingflokksfundar sem hófst fyrir skömmu.

Þingflokkar þessara þriggja flokka funda nú allir í morgunsárið um mögulegt ríkisstjórnarsamstarf og hvort að grundvöllur sé fyrir því. Fundur Vinstri grænna hófst á níunda tímanum í Alþingishúsinu og upp úr klukkan 9:30 hófst fundur Sjálfstæðismanna í Valhöll.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, vildi ekkert tjá sig fyrir fundinn með sínu fólki en Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði þingflokkinn ætla að ræða forsendur mögulegs ríkisstjórnarsamstarfs við VG og Framsókn.

 

Ekki liggur fyrir hver verður forsætisráðherra í slíkri ríkisstjórn en líklegt verður að teljast að Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, boði einhvern leiðtoganna þriggja til sín á fund á Bessastöðum í dag eða á morgun ef farið verður í formlegar viðræður.


Tengdar fréttir

Þingflokkur Vinstri grænna fundar í morgunsárið

Ekki fást upplýsingar um hvað verður rætt á fundinum en fastlega má gera ráð fyrir að farið verði yfir stöðuna í óformlegum þreifingum Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks um mögulegt ríkisstjórnarsamstarf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×