Viðskipti innlent

Orð fá vængi

Stjórnarmaðurinn skrifar
Um sautján prósent þjóðarinnar eru á leigumarkaði samkvæmt nýrri mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs. Hlutfallið er hið sama og árið 2013 en hefur þó vaxið um 5% frá 2006. Athyglisvert er að bera þennan raunveruleika saman við þann sem birtist í nýafstaðinni kosningabaráttu, en þar mátti vart annað skilja en að allt að því ómögulegt væri fyrir ungt fólk að koma undir sig fótunum í eigin húsnæði. Þannig höfðu allir flokkar aðstoð við ungt fólk í þeim sporum á stefnuskránni.

Nú skal ekki gert lítið úr því stóra skrefi að flytja úr foreldrahúsum í fyrsta skipti og í eigið eða leigt húsnæði. Raunar er augljóst að þetta skref er eilítið þyngra en áður, en hlutfall fólks á þrítugsaldri sem enn býr í foreldrahúsum hefur hækkað nokkuð síðustu ár. Getur hins vegar verið að þar spili saman hækkandi húsnæðis- og leiguverð annars vegar, og hins vegar orðræðan í samfélaginu? Það hefur aldrei verið auðvelt að koma undir sig fótunum, og það á ekki að vera auðvelt. Nú er viðkvæðið að ungt fólk eigi varla möguleika. Slík orð eru fljót að fá vængi, og orðræðan verður allt í einu að stórasannleik. Ungt fólk fer að trúa því að ómögulegt sé að taka skrefið, og að peningunum sé betur varið á kaffihúsum, restauröntum eða í fataverslunum.

Staðreyndin er þó sú að hlutfall fólks á leigumarkaði hér á landi er mun lægra en í öllum þeim löndum sem við berum okkur saman við. Í Bretlandi búa 60% fólks í eigin húsnæði. Í Danmörku er hlutfallið sambærilegt og litlu hærra í Finnlandi og í Svíþjóð. Einungis í Noregi af Norðurlöndunum er hlutfall þeirra sem búa í eigin fasteign sambærilegt og á Íslandi. Við þetta má bæta að aðgengi að fjármagni til kaupa á fasteignum er afar þægilegt á Íslandi miðað við nágrannalöndin, og þess utan eru laun með því hæsta sem gerist sem hlutfall af fasteignaverði. Það er helst að vaxtakjör á lánum séu ósamkeppnishæf, en slíkt telst ekki hindrun við að eignast fasteign til að byrja með.

Staðreyndin er því sú að, þótt annað megi skilja á umræðunni, það er beinlínis auðvelt að eignast fasteign á Íslandi í alþjóðlegum samanburði. Það þarf heldur alls ekkert að vera neikvætt þótt leigumarkaðurinn stækki eða að fólk telji sig þurfa að dvelja lengur hjá foreldrum sínum en áður tíðkaðist. Hvort ætli sé annars meira hamlandi fyrir ungt fólk, að vera bundið steypustyrktum átthagafjötrum eða að búa enn í foreldrahúsum? Heilbrigður fasteignamarkaður byggist ekki bara á því að allir búi í eigin húsnæði. Heldur að boðið sé upp á báða kosti. Þegar kemur að eigin húsnæði eða leiguhúsnæði, er bæði einfaldlega betra.

Stjórnarmaðurinn er sigldur innherji með puttann á púlsinum. Stjórnarmaðurinn skrifar í Markaðinn í Fréttablaðinu á miðvikudögum og liggur ekki á skoðunum sínum um menn og viðskiptaleg málefni.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×