Íslenski boltinn

Heimir: Þjálffræðilegt afrek að koma FH í Evrópukeppni miðað við það sem gekk á

Tómas Þór Þórðarson skrifar

Heimir Guðjónsson, fyrrverandi þjálfari FH í Pepsi-deild karla í fótbolta, telur það afrek hjá sér að hafa náð 3. sætinu í sumar og þ.a.l. komið liðinu í Evrópukeppni miðað við allt sem gekk á yfir tímabilið.

FH hafði ekki endað neðar en í öðru sæti á hverrri einustu leiktíð frá því 2003 og orðið átta sinnum Íslandsmeistari á þeim tíma þar til að liðið endaði í 3. sætinu á eftir Val og Stjörnunni í sumar.

Heimir stýrði FH til fimm af þessum átta Íslandsmeistaratitlum en hann vann tvo sem aðstoðarþjálfari og þann fyrsta í sögu FH sem leikmaður og fyrirliði.

Þrátt fyrir 18 frábær ár í Kaplakrika var Heimir rekinn frá FH eftir tímabilið en Ólafur Kristjánsson var svo ráðinn þjálfari liðsins. Heimir var rekinn á þannig tímapunkti að hann gat ekki tekið við neinu liði í efstu deild þar sem öll voru búin að ráða.

Hörður Magnússon, íþróttafréttamaður 365, verður með ítarlegt viðtal við Heimi í Sportpakkanum á Stöð 2 klukkan 19.10 í kvöld en brot úr því má sjá í spilaranum hér að ofan. Þar spyr Hörður sinn gamla liðsfélaga hvort hann viti hvað fór úrskeiðis í sumar hjá FH-liðinu.

„Þetta voru margir samverkandi þættir. Á endanum tel ég að það var þjálffræðilegt afrek að koma þessu liði í Evrópukeppnina miðað við það sem að gekk á. Nú tekur bara nýr þjálfari við og ég ætla bara að vona að FH gangi vel í framtíðinni,“ segir Heimir Guðjónsson.

Ítarlegra viðtal verður við Heimi í Sportpakkanum á Stöð 2 í kvöld og á Vísi.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.