Íslenski boltinn

Heimir: Þjálffræðilegt afrek að koma FH í Evrópukeppni miðað við það sem gekk á

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Heimir Guðjónsson, fyrrverandi þjálfari FH í Pepsi-deild karla í fótbolta, telur það afrek hjá sér að hafa náð 3. sætinu í sumar og þ.a.l. komið liðinu í Evrópukeppni miðað við allt sem gekk á yfir tímabilið.

FH hafði ekki endað neðar en í öðru sæti á hverrri einustu leiktíð frá því 2003 og orðið átta sinnum Íslandsmeistari á þeim tíma þar til að liðið endaði í 3. sætinu á eftir Val og Stjörnunni í sumar.

Heimir stýrði FH til fimm af þessum átta Íslandsmeistaratitlum en hann vann tvo sem aðstoðarþjálfari og þann fyrsta í sögu FH sem leikmaður og fyrirliði.

Þrátt fyrir 18 frábær ár í Kaplakrika var Heimir rekinn frá FH eftir tímabilið en Ólafur Kristjánsson var svo ráðinn þjálfari liðsins. Heimir var rekinn á þannig tímapunkti að hann gat ekki tekið við neinu liði í efstu deild þar sem öll voru búin að ráða.

Hörður Magnússon, íþróttafréttamaður 365, verður með ítarlegt viðtal við Heimi í Sportpakkanum á Stöð 2 klukkan 19.10 í kvöld en brot úr því má sjá í spilaranum hér að ofan. Þar spyr Hörður sinn gamla liðsfélaga hvort hann viti hvað fór úrskeiðis í sumar hjá FH-liðinu.

„Þetta voru margir samverkandi þættir. Á endanum tel ég að það var þjálffræðilegt afrek að koma þessu liði í Evrópukeppnina miðað við það sem að gekk á. Nú tekur bara nýr þjálfari við og ég ætla bara að vona að FH gangi vel í framtíðinni,“ segir Heimir Guðjónsson.

Ítarlegra viðtal verður við Heimi í Sportpakkanum á Stöð 2 í kvöld og á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×