Fótbolti

Sigurður Ragnar fær ekki bara tvo leiki hjá Kínverjunum heldur heil þrjú ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sigurður Ragnar Eyjólfsson.
Sigurður Ragnar Eyjólfsson. Vísir/Getty
Sigurður Ragnar Eyjólfsson verður þjálfari kínverska kvennalandsliðsins í fótbolta næstu þrjú árin en hann hefur gengið frá þriggja ára samningi við kínverska knattspyrnusambandið.

Fyrr í dag komu fréttir af því að Sigurður Ragnar myndi taka við kínverska landsliðinu af Frakkanum Bruno Bini og stýra liðinu í næstu tveimur landsleikjum.

Sigurður Ragnar staðfestir í samtali við vef Morgunblaðsins í dag að hann hafi í raun verið ráðinn til þriggja ára. Hann segir starfið mjög viðamikið enda sé kínverska landsliðið saman 160-200 daga á ári.

„Þetta er algjört draumastarf. Kína er fjölmennasta þjóð í heimi og Kínverjarnir hafa auðveldlega bolmagn til að ráða hvern sem þeir vilja í þetta starf. Þeir auglýstu það ekki, heldur leituðu til mín og báðu mig um að taka við liðinu, og ég er ofboðslega stoltur af því og ætla að gera allt sem ég get til að hjálpa liðinu," sagði Sigurður Ragnar í samtali við mbl.is.

Sigurður Ragnar þjálfaði íslenska kvennalandsliðið frá 2006 til 2013 og var fyrstur til að fara með íslenskt A-landsliðs í fótbolta á stórmót.

Hann fór til Kóna fyrr á þessu ári og tók við kvennaliði  JS Suning FC.  Hann hættir nú með lið Jiangsu Suning en undir hans stjórn náði liði þriðja sætinu í kínversku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×