Golf

Ólafía endaði í 73. sæti peningalistans og verður í efsta forgangsflokki á næstu leiktíð

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ólafía Þórunn bregður á leik.
Ólafía Þórunn bregður á leik. Vísir/Getty
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir kórónaði frábært tímabil sitt á LPGA-mótaröðinni í golfi með því að hafna í 35.-37. sæti á Bláfjarðarmótinu sem lauk í Kína í nótt. Fyrir árangurinn fékk hún tæplega þrettán þúsund dollara, jafnvirði rúmra 1,3 milljóna króna.

Ástæða mikilvægi þess að vera ofarlega á peningalistanum er að staða kylfinga á honum ræður því hvort að viðkomandi kylfingur fær aftur þátttökurétt á næstu leiktíð og í hvaða forgangsflokki hann verður ef það tekst.

Stóra markmiðið hjá Ólafíu fyrir keppnistímabilið var að vera meðal 80 efstu kylfinga á peningalista mótaraðarinnar og er nú ljóst að Ólafía hafnar í 73. sæti listans með alls 213 þúsund dollara, jafnvirði tæpra 22 milljóna króna.

Hennar besti árangur í ár var á Indy Women In Tech-mótinu í Bandaríkjunum í byrjun september þar sem hún hafnaði í fjórða sæti og fékk fyrir það 10,8 milljónir króna, eftir að hafa fengið örn á lokaholu mótsins. Þá hoppaði hún upp í 67. sæti peningalistans og hefur náð að halda sér á svipuðum slóðum síðan.

Staða Ólafíu á peningalistanum.Vísir/Skjáskot
Efstu 80 kylfingar peningalistans fara í efsta forgangsflokk á næstu leiktíð LPGA-mótaraðarinnar. Ólafía hefur því ekki aðeins tryggt sér áframhaldandi þátttökurétt, heldur verður hún nú í þeirri stöðu að geta oftast valið sér mót til að keppa á.

Ólafía hafnaði í 80. sæti á stigalista mótaraðarinnar en efstu 72 kylfingarnir á þeim lista fá þátttökurétt á CME Globe-mótinu, lokamóti tímabilsins þar sem háar peningaupphæðir eru í húfi. Mun hún því ekki keppa á því móti nú.

Árangurinn sannarlega framúrskarandi hjá Ólafíu sem er nú í kjörstöðu til að gera enn betur á komandi leiktíð, sem hefst snemma á næsta ári.

Hér má sjá upplýsingar um forgangslista LPGA-mótaraðarinnar [hlekkur á PDF-skjal] í ár en þar kemur fram að efsti flokkur á listanum eru 80 tekjuhæstu kylfingar síðusta tímabils.


Tengdar fréttir

Tólf söguleg skref hjá Ólafíu

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir heldur áfram að komast þangað sem enginn íslenskur kylfingur hefur komist áður á hennar fyrsta tímabili á sterkustu mótaröð í heimi. Hún rýkur upp bæði heims- og peningalistann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×