Körfubolti

Helena: Losnaði um Hildi undir körfunni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Helena er fyrirliði íslenska liðsins.
Helena er fyrirliði íslenska liðsins. vísir/andri marinó

Helena Sverrisdóttir var aðeins einni stoðsendingu frá því að vera með þrefalda tvennu þegar Ísland tapaði 62-84 fyrir Svartfjallalandi í undankeppni EM 2019 í kvöld.

„Þær refsuðu okkur undir lokin. En við sýndum flotta baráttu og skildum allt eftir á gólfinu. Stundum gengur það ekki,“ sagði Helena sem skoraði 18 stig, tók 10 fráköst og gaf níu stoðsendingar.

Tapaðir boltar reyndust íslenska liðinu dýrkeyptir í leiknum í dag. Þeir voru alls 23 talsins.

„Þegar við töpuðum boltanum svona hátt uppi á vellinum náðu þær hraðaupphlaupum á okkur. Það drap þetta svolítið niður. En það er bara eitthvað sem við þurfum að laga,“ sagði Helena sem var dugleg að finna Hildi Björgu Kjartansdóttur sem skoraði 23 stig.

„Ég var ekkert bara að reyna að gefa á Hildi,“ sagði Helena og hló.

„Hildur skoraði vel í dag og það losnaði um hana undir körfunni, sérstaklega í seinni hálfleik. Maður reynir bara að finna þá sem er opin.“

Íslenska liðið heldur nú til Slóvakíu, þar sem Helena lék á sínum tíma, en framundan er leikur gegn heimakonum í undankeppni EM.

„Mér líst ágætlega á það. Við erum búnar að einbeita okkur að þessum leik en núna förum við að skoða Slóvakíu. Við spiluðum við þær í síðustu undankeppni og þekkjum þær ágætlega. Við erum bara spenntar að fara út og mæta þeim,“ sagði Helena að lokum


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.