Körfubolti

Ívar: Fyrri hálfleikurinn var frábær

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ívar hrósaði íslenska liðinu eftir leikinn.
Ívar hrósaði íslenska liðinu eftir leikinn. vísir/andri marinó

Þrátt fyrir tap fyrir Svartfjallalandi, 62-84, í dag var Ívar Ásgrímsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í körfubolta, ánægður með frammistöðu sinna stelpna í leiknum.

Hann segir að 23 tapaðir boltar hafi reynst íslenska liðinu dýrkeyptir í leiknum í dag.

„Við sögðum fyrir leikinn að ef við töpuðum boltanum á móti svona góðu liði myndum við lenda í erfiðleikum,“ sagði Ívar sem hrósaði íslenska liðinu fyrir frammistöðuna í dag.

„Fyrri hálfleikurinn var frábær og með betri leikjum sem við höfum spilað. Hann jafnaðist nánast á við leikinn gegn Ungverjum. Mér finnst þetta betra lið. Baráttan og vörnin voru frábær og þær voru í miklum vandræðum.“

Ívar sagði að það hefði dregið af íslenska liðinu í seinni hálfleik.

„Þessi barátta kostaði að við fórum að tapa boltanum. Við urðum þreyttar. Lykilmenn eins og Helena [Sverrisdóttir] og Hildur [Björg Kjartansdóttir] gera mikið fyrir okkur í vörn og sókn og það kostar þreytu. Þessar stelpur eru búnar að spila úti og eru vanar með svona vörn á sér,“ sagði Ívar.

„Mér fannst allt liðið spila vel. Auðvitað er sárt að tapið hafi verið full stórt. Við stjórnuðum leiknum alveg í fyrri hálfleik. Þegar við töpuðum boltanum í fyrri hálfleik fengum við ekki á okkur hraðaupphlaup. Það var kannski munurinn á fyrri og seinni hálfleik.“

Íslenska liðið mætir Slóvakíu ytra í öðrum leik sínum í undankeppninni á miðvikudaginn.

„Við þurfum að byggja á því sem við gerðum í dag. Við þurfum að lengja góðu kaflana og vera betri með boltann. Slóvakar spila gríðarlega grimma vörn á heimavelli og við verðum að passa upp á boltann,“ sagði Ívar að endingu.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.