Körfubolti

Ívar: Fyrri hálfleikurinn var frábær

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ívar hrósaði íslenska liðinu eftir leikinn.
Ívar hrósaði íslenska liðinu eftir leikinn. vísir/andri marinó
Þrátt fyrir tap fyrir Svartfjallalandi, 62-84, í dag var Ívar Ásgrímsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í körfubolta, ánægður með frammistöðu sinna stelpna í leiknum.

Hann segir að 23 tapaðir boltar hafi reynst íslenska liðinu dýrkeyptir í leiknum í dag.

„Við sögðum fyrir leikinn að ef við töpuðum boltanum á móti svona góðu liði myndum við lenda í erfiðleikum,“ sagði Ívar sem hrósaði íslenska liðinu fyrir frammistöðuna í dag.

„Fyrri hálfleikurinn var frábær og með betri leikjum sem við höfum spilað. Hann jafnaðist nánast á við leikinn gegn Ungverjum. Mér finnst þetta betra lið. Baráttan og vörnin voru frábær og þær voru í miklum vandræðum.“

Ívar sagði að það hefði dregið af íslenska liðinu í seinni hálfleik.

„Þessi barátta kostaði að við fórum að tapa boltanum. Við urðum þreyttar. Lykilmenn eins og Helena [Sverrisdóttir] og Hildur [Björg Kjartansdóttir] gera mikið fyrir okkur í vörn og sókn og það kostar þreytu. Þessar stelpur eru búnar að spila úti og eru vanar með svona vörn á sér,“ sagði Ívar.

„Mér fannst allt liðið spila vel. Auðvitað er sárt að tapið hafi verið full stórt. Við stjórnuðum leiknum alveg í fyrri hálfleik. Þegar við töpuðum boltanum í fyrri hálfleik fengum við ekki á okkur hraðaupphlaup. Það var kannski munurinn á fyrri og seinni hálfleik.“

Íslenska liðið mætir Slóvakíu ytra í öðrum leik sínum í undankeppninni á miðvikudaginn.

„Við þurfum að byggja á því sem við gerðum í dag. Við þurfum að lengja góðu kaflana og vera betri með boltann. Slóvakar spila gríðarlega grimma vörn á heimavelli og við verðum að passa upp á boltann,“ sagði Ívar að endingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×