Erlent

Trump: Myndi aldri kalla Kim Jong-un „lágvaxinn og feitan“

Atli Ísleifsson skrifar
Donald Trump hefur verið í Víetnam síðustu daga en nú liggur leiðin til Filippseyja.
Donald Trump hefur verið í Víetnam síðustu daga en nú liggur leiðin til Filippseyja. Vísir/afp
Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur sagt að stjórnvöld í Kína hafi loks samþykkt að herða þvinganir gegn Norður-Kóreu. Trump hefur verið á ferðalagi í Asíu síðustu daga og liggur leiðin nú til Filippseyja þar sem fundur ASEAN, Sambands Suðaustur-Asíuríkja, er hafinn.

Trump tísti í morgun að hann hafi reynt að koma á vináttu á milli hans og Kim Jong-un, þó að líklega megi þar finna vott af kaldhæðni í texta forsetans. „Ég myndi ALDREI kalla hann „lágvaxinn og feitan,“ segir Trump.

Bandaríkjaforseti upplýsti, einnig í tísti, að kínverski forsetinn Xi Jingping hafi samþykkt enn strangari viðskiptaþvinganir gegn Norður-Kóreu. Segir hann að framfarir hafi náðst í deilunni.

Á síðustu misserum hafa stjórnvöld í Washington og Pyongyang átt í orðastríði og hafa deilur Norður-Kóreustjórnar við nágranna sína og umheiminn sjaldan verið eldfimari.

Talsmaður utanríkisráðuneytis Norður-Kóreu sagði um helgina að Trump væri stríðsæsingamaður sem óskaði þess að vopnuð átök myndu brjótast út á Kóreuskaganum. „Í heimsókn sinni [til Asíu] hefur Trump sýnt sitt rétta eðli sem eyðingarafl þegar kemur að heimsfriði og stöðugleika, og hann hefur beðið um kjarnorkustríð á Kóreuskaga.“

Nú hefur Trump tíst á ný: „Af hverju ætti Kim Jong-un að móðga mig með því að kalla mig „gamlan“ þegar ég myndi ALDREI kalla hann „lágvaxinn og feitan“.  Æ já, ég reyni að vera vinur hans – kannski verður það þannig einhvern daginn!“


Tengdar fréttir

Ólíkur boðskapur þeirra Xi og Trumps

Leiðtogafundur Samvinnustofnunar Asíu- og Kyrrahafsríkja hófst í gær. Forsetar Bandaríkjanna og Kína tóku báðir til máls.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×