Körfubolti

Samvinna sem gefur góð fyrirheit

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Helena Sverrisdóttir var einni stoðsendingu frá því að ná þrefaldri tvennu.
Helena Sverrisdóttir var einni stoðsendingu frá því að ná þrefaldri tvennu. vísir/andri marinó

Það var ramman reip að draga hjá íslenska kvennalandsliðinu í körfubolta gegn Svartfjallalandi í undankeppni EM 2019 á laugardaginn. Svartfellingar voru alltaf skrefinu framar og unnu á endanum 22 stiga sigur, 62-84.

Tapið var full stórt því íslenska liðið spilaði ágætlega á löngum köflum, sérstaklega varnarmegin. Sóknin var meira vandamál, sérstaklega í seinni hálfleik.

Sóknarleikur Íslands var borinn uppi af þeim Helenu Sverrisdóttur og Hildi Björgu Kjartansdóttur sem skoruðu 41 af 62 stigum íslenska liðsins.

Þær náðu sérstaklega vel saman en Helena gaf sjö af níu stoðsendingum sínum á Hildi sem kláraði færin sín í kringum körfuna vel. Hildur hitti úr 11 af 16 skotum sínum inni í teig.

„Ég var ekkert bara að reyna að gefa á Hildi,“ sagði Helena og brosti í samtali við Fréttablaðið eftir leikinn á laugardaginn.

„Hildur skoraði vel í dag og það losnaði um hana undir körfunni, sérstaklega í seinni hálfleik. Maður reynir bara að finna þá sem er opin.“

Hildur var að vonum ánægð með þjónustuna sem hún fékk frá landsliðsfyrirliðanum. „Helena fann mig vel en ég vil frekar fá sigur og skora minna,“ sagði Hildur eftir leikinn sem var sá fyrsti hjá íslenska liðinu í undankeppni EM.

Næsti leikur íslensku stelpnanna er gegn Slóvakíu ytra á miðvikudaginn.


Tengdar fréttir

Ívar: Fyrri hálfleikurinn var frábær

Þrátt fyrir tap fyrir Svartfjallalandi, 62-84, í dag var Ívar Ásgrímsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í körfubolta, ánægður með frammistöðu sinna stelpna í leiknum.

Helena: Losnaði um Hildi undir körfunni

Helena Sverrisdóttir var aðeins einni stoðsendingu frá því að vera með þrefalda tvennu þegar Ísland tapaði 62-84 fyrir Svartfjallalandi í undankeppni EM 2019 í kvöld.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.