Enski boltinn

Coutinho segist vera ánægður hjá Liverpool

Brasilíski töframaðurinn í leik með Liverpool á dögunum.
Brasilíski töframaðurinn í leik með Liverpool á dögunum. Vísir/Getty
Philippe Coutinho segist ekki ætla að hugsa út í sögusagnir um að hann sé á förum frá Liverpool til Barcelona en þess í stað ætlar hann að einblína á tímabilið sem er framundan í ensku úrvalsdeildinni.

Coutinho var efstur á óskalista Barcelona í sumar og óskaði hann eftir því að Liverpool myndi samþykkja tilboð frá spænska stórveldinu en án árangurs, Liverpool neitaði að selja hann þrátt fyrir að Barcelona hafi boðið vel.

Spænskir miðlar hafa slegið því upp að hann sé á innkaupalista Barcelona í janúar og að forráðamenn Börsunga ætli að láta reyna á þrautseigju forráðamanna Liverpool en Coutinho segist vera rólegur yfir þessu öllu saman.

„Ég er að spila í einni af bestu deildum heims og er ánægður þar, á þessari stundu er ég mjög ánægður með allt í mínu lífi og get vonandi fengið að spila í næsta leik með landsliðinu,“ sagði Coutinho við Skysports en hann hefur misst af undanförnum leikjum með Liverpool vegna meiðsla sem og leik Brasilíu gegn Japan á dögunum.

„Það voru meiðsli sem tóku sig upp á óheppilegum tíma en ég er orðinn heill heilsu og fæ vonandi að spila gegn Englandi. Ég er mjög stoltur af því að spila fyrir brasilíska landsliðið og vill aldrei missa af leik.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×