Enski boltinn

Sá hetjuna sína skora þrennu í fyrsta sinn sem hann fór á Old Trafford

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Marcus Rasford leit mikið upp til Ronaldos hins brasilíska á sínum yngri árum.
Marcus Rasford leit mikið upp til Ronaldos hins brasilíska á sínum yngri árum. vísir/getty
Marcus Rashford, framherji Manchester United og enska landsliðsins, segir að hinn brasilíski Ronaldo hafi verið hetjan sín þegar hann var ungur.

Fyrsti leikurinn sem Rashford sá á Old Trafford var leikur United og Real Madrid í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu vorið 2003.

Ronaldo átti sviðið á Old Trafford þetta vorkvöld og skoraði öll mörk Real Madrid í 4-3 tapi. Madrídingar unnu fyrri leikinn 3-1 og einvígið 6-5 samanlagt.

„Ég horfði á öll myndböndin af honum á YouTube og hann spilaði í fyrsta leiknum sem ég fór á. Ég var bara fimm ára gamall. Ronaldo var uppáhalds leikmaður bróður míns og þess vegna fylgdist ég svona grannt með honum,“ sagði Rashford sem fékk hrós frá hetjunni sinni á síðasta ári.

„Hann er mjög góður ungur leikmaður. Ég sé sjálfan mig í honum. Hann er hugrakkur, fljótur og góður með boltann. Hann á sér bjarta framtíð,“ sagði Ronaldo um Rashford.

Rashford og félagar í enska landsliðinu mæta Brasilíu í vináttulandsleik á Wembley annað kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×