Körfubolti

Domino's Körfuboltakvöld: Kviknaði í netinu hjá Pétri Rúnari

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Pétur Rúnar Birgisson átti magnaðan þriðja leikhluta í sigri Tindastóls á Keflavík í sjöttu umferðar Domino's deildar karla.

„Þið sem eruð í eldri kantinum munið kannski eftir tölvuleiknum NBA Jam þegar maður hitti nokkrum í röð og það kviknaði í netinu. Það var smá þannig stemming í gær [á fimmtudaginn] hjá Pétri Rúnari,“ sagði Kjartan Atli Kjartansson um frammistöðu Péturs í Domino's Körfuboltakvöldi á föstudagskvöldið.

Pétur skoraði 26 stig í leiknum, þar af 21 í þriðja leikhluta og 19 þeirra komu í röð, án þess að liðsfélagi hans næði að skora inn á milli.

„Frábær leikmaður,“ sagði Hermann Hauksson, einn sérfræðinga þáttarins. „Það er mikið talað um hann og Sigtrygg. Nú er Pétur búinn að vera maðurinn í nokkur ár og svo kemur Sigtryggur og hann er að spila frábærlega.“

„Hann er ekkert að hugsa út í þetta. Hann kemur bara í alla leiki og gefur 100 prósent.“

Kjartan Atli tók undir þetta. „Það tekur þá tíma að slípa sig saman. Tímabilið er bara nýbyrjað.“

Antonio Hester meiddist illa í leiknum, og seinna kom í ljós að hann hefði brotnað á ökkla. Hinir leikmenn Tindastóls stigu upp við það og sýndu gæði sín.

„Tindastóll er bara ofboðslega þétt lið,“ sagði Hermann og Kristinn Geir Friðriksson sagði þetta bestu frammistöðu Tindastóls í vetur.


Tengdar fréttir

Umfjöllun, viðtöl og myndir: Keflavík - Tindastóll 88-97 | Pétur fór fyrir Tindastólsliðinu eftir að Hester meiddist

Tindastóll hélt sigurgöngu sinni áfram í Domino´s deild karla í körfubolta í kvöld þegar liðið vann níu stiga sigur í Keflavík, 97-88, þrátt fyrir að leika allan seinni hálfleikinn án Bandaríkjamannsins Antonio Hester. Hester meiddist illa á ökkla í fyrri hálfleik eftir að hafa skorað 16 stig á 15 mínútum. Pétur Rúnar Birgisson var með 26 stig og 13 stoðsendingar fyrir Stólana í kvöld og tók liðið á herðarnar í seinni hálfleiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×