Skoðun
Gunnar Guðjónsson.

Til hagsmunaaðila HÖRPU

Gunnar Guðjónsson skrifar

Menning er uppspretta, ekki verkfæri. Hún skilar sér með margvíslegum hætti út í samfélagið sem ekki er alltaf hægt að endurspegla í stöðluðu Excel-skjali um inn- og útstreymi fjármagns eða með nákvæmlega hvaða hætti ákveðið fjármagn skilar sér til baka til aðstandenda viðburða. Hin uppbyggjandi áhrif menningarinnar hafa oft verið tekin saman og greind sem alþjóðleg kynning landsins, skapandi hagkerfið og innri hvatning sem sprettur upp við það að „menningast“.

Hetjulegar baráttur eiga sér stað við að koma rekstri HÖRPU í fastari skorður. Ráðist hefur verið í endurskipulagningu verklagsferla, aukna nýtingu rýmis og jafnvægi í opinberum gjöldum. Þrátt fyrir þessa miklu vinnu hafa mikilvægustu tækifærin enn ekki komist á beina braut. Grundvallarstaða hvers tónleikahúss eru tengsl og samband þess við hagsmunaaðila, allt frá eigendum og aðstandendum til listamanna og áhorfenda. Fíngert framboð tónleika, áskriftaraða og hátíða þar sem gæði, verð, tímasetning og markaðskynning hámarka gildi hvers viðburðar miðlar sterkara sambandi við listformið sjálft sem stuðlar að frekari viðskiptum í framtíðinni. Þessi vandmeðfarna hringrás er lykilatriði í uppbyggingu á fyrirsjáanleika og þar með stöðugleika í rekstrinum. Ég nefni hér til fyrirmyndar framúrskarandi starf Sinfóníuhljómsveitarinnar sem vakið hefur alþjóðlega athygli.

Í náinni samvinnu við íbúa og samstarfsaðila er HARPA eini aðilinn sem getur hvað mest lágmarkað áhættuna við að koma klassískum tónleikaröðum af stað og gert langtímatilvist þeirra raunhæfa. Traust og öflugt samstarf leikur hérna mjög mikilvægt hlutverk, því þar með styrkist samningsstaða og verklag allra til muna. Til fyrirmyndar um árangursríka samþættingu íbúa og þess húss sem þeir búa í get ég t.d. nefnt Fílharmóníu Berlínar og nýlega endurskipulagningu Fílharmóníu Lúxemborgar. Tonhalle Zürich er einnig að færast út á þessar slóðir.

Í Tónleikahúsi Vínarborgar (Wien­er Konzerthaus), eins umfangsmesta tónleikahúsi heimsins með um 600 eigin viðburði, 60 áskriftaraðir, og 31.000 áskrifendur, hefur á undanförnum árum viðamikil greining og vottun (Quality Management System, stöðull ISO9001) á rekstrinum átt sér stað. Þessi vinna hefur leitt í ljós áþreifanlegri mælistikur á starfsemi sem og skilvirkni hússins. Það er því ekki síður mikilvægt fyrir HÖRPU að leggja grunn að sterku alþjóðlegu tengslaneti.

Það eru forréttindi fyrir íslenskt samfélag að eiga HÖRPU og þá sérstaklega sal eins og Eldborg. Aðstaðan er að öllu leyti metnaðarfull til þess að bera sterkan kjarna af eigin viðburðum og vera þar með aflið á bak við uppsprettu tónlistarlífsins. Það kallar á mikla handavinnu að koma slíkum áformum á beina braut og þess vegna er mikilvægt að missa ekki þróttinn, nýta tímann vel og að sama skapi fá skýrari mynd af áður óþekktum möguleikum því til þess að efla skapandi hagkerfið þurfum við að örva sköpunargáfuna.

Höfundur hefur starfað í klassíska geiranum í Vín sl. 6 ár, þar á meðal sem verkefnastjóri í Wiener Konzerthaus við tónleikahald og uppsetningu ISO9001.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Skoðun

Skoðun

Skynsemi

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.