Innlent

Lokun flugbrautar ekki haft áhrif á innanlandsflug

Höskuldur Kári Schram skrifar
Lokun minnstu flugbrautar á Reykjavíkurflugvelli hefur ekki haft áhrif á áætlunarflug um völlinn þrátt fyrir að brautinni hafi verið lokað fyrir rúmu ári. Yfir sjö hundruð sjúkraflug hafa verið farin það sem af er þessu ári og hafa aldrei verið fleiri.

Norð­aust­ur-suð­vestur flug­braut­inni á Reykja­vík­ur­flug­velli, sem stundum er hefur verið kölluð neyðarbrautin, var lokað í júlí á síðasta ári í kjölfar dóms Hæstaréttar. Málið var mjög umdeilt og margir óttuðust að þetta myndi hafa áhrif á flugöryggi hér innanlands.

Fréttastofa óskaði eftir upplýsingum frá Isavia um málið og spurði hvort lokun brautarinnar hafi haft áhrif á flugumferð um völlinn.

Í skriflegu svari Isavia til fréttastofu segir meðal annars:

„Síðustu tólf mánuði hefur ekki orðið truflun á áætlunarflugi sem vitað er að rekja megi til aðstæðna á Reykjavíkurflugvelli. Það áætlunarflug sem fallið hefur niður hefur samkvæmt upplýsingum Isavia verið vegna veðuraðstæðna sem leitt hafa til ókyrrðar yfir öllu landinu,“ eins og segir í svari Isavia.

Nokkur sveitarfélög ályktuðu sérstaklega og lýstu yfir áhyggjum þegar flugbrautinni var lokað á sínum tíma og var sérstaklega minnst á sjúkraflug í því samhengi.

Yfir 700 sjúkraflug hafa verið farin á Íslandi það sem af eru þessu ári og hafa aldrei verið fleiri. Leifur Hallgrímsson framkvæmdastjóri Mýflugs sagði í samtali við fréttastofu í dag að lokun brautinnar hafi haft áhrif á sjúkraflug félagsins síðastliðinn vetur. Í einu tilviki hafi vél, sem var að flytja sjúkling frá Akureyri, ekki getað lent vegna þessa. Hann telur að lokun brautarinnar hafi haft neikvæð áhrif á flugöryggi á Reykjavíkurflugvelli og skapi óþarfa hættu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×