Handbolti

Seinni bylgjan: Þau voru best í október

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Bestu leikmenn októbermánaðar í Olís deildum karla og kvenna voru kosin á Vísi í liðinni viku og voru úrslit kjörsins kunngerð í Seinni bylgjunni á Stöð 2 Sport í gær.

Í kjörinu um leikmann mánaðarins í Olís deild karla voru þeir Hreiðar Levý Guðmundsson, Einar Rafn Eiðsson, Daníel Þór Ingason og Elvar Örn Jónsson.

Kosningin fór svo að þeir Hreiðar Levý og Einar Rafn fengu báðir 19 prósent atkvæða. Daníel Þór hlaut 29 prósent og fékk Elvar Örn þriðjung atkvæða og stóð því uppi sem sigurvegari.

Elvar Örn var magnaður í liði Selfoss áður en hann meiddist undir lok mánaðarins.

Sjá einnig: Seinni bylgjan: Lið októbermánaðar

Valið um leikmann október í Olís deild kvenna stóð á milli þeirra Maria Pereira, Diana Satkauskaite, Elínar Jónu Þorsteinsdóttur og Ester Óskarsdóttur.

Maria fékk 14 prósent atkvæða og Diana 15, Ester var með 32 prósent og því fékk Elín Jóna 39 prósentin sem eftir stóðu og var útnefnd leikmaður októbermánaðar.

Elín Jóna var öflug í marki Hauka sem töpuðu ekki leik í októbermánuði.

Tilþrif mánaðarins voru einnig valin af almenningi í landinu. Þar stóðu til boða þau tilþrif sem valin voru tilferð umferðarinnar í mánuðinum.

Glæsilegt mark Bjarka Lárussonar úr horninu, þrumufleygur Elvars Arnar í slánna og inn og mark Einars Rafns sem fór í gólfið og samskeytin áttust við og var það mark Elvars sem stóð upp úr sem tilþrif mánaðarins.

Elvar nærri helming atkvæðanna, Bjarki fékk fjórðung og Einar 30 prósent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×