Handbolti

Viðkvæmum myndum af einni bestu handboltakonu heims dreift á netinu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Nora Mørk er ein besta handboltakona í heimi.
Nora Mørk er ein besta handboltakona í heimi. vísir/getty
Óprúttinn aðili braust inn í síma Noru Mørk, einnar bestu handboltakonu í heimi, í haust og stal þaðan persónulegum myndum og dreifði á veraldarvefnum.

Mørk, sem hefur verið í lykilhlutverki í sigursælu norsku landsliði undanfarin ár, ræddi þetta mál við TV2 í gær.

Mørk var bæði markadrottning á Ólympíuleikunum og EM 2016.vísir/getty
„Líf mitt hefur breyst. Ég er ekki lengur alltaf glöð og sjálfstraustið er minna. Hver einasti dagur hefur verið erfiður. Það er erfitt að standa í þessu. Ég held að fólk sem gerir svona lagað skilji ekki hvaða áhrif þetta hefur á mann,“ sagði Mørk.

Mørk var með norska landsliðinu þegar hún komst að því að myndirnar væru komnar í dreifingu á netinu. Í viðtalinu við TV2 segist hún nánast hafa lamast er hún fékk þessar hræðilegu fréttir.

Mørk segir að það séu þrjár ástæður fyrir því að hún ákvað að ræða opinberlega um þessa skelfilegu reynslu.

„Þetta eru þrjár ástæður. Til að ná aftur valdi yfir mínu lífi, út af því ég er sár og reið og fyrir allar þær sem hafa lent í þessu sama,“ sagði Mørk.

Hún íhugaði að gefa ekki kost á sér fyrir heimsmeistaramótið í Þýskalandi. Mørk verður hins vegar með á HM þar sem Noregur á titil að verja.

Mørk, sem er 26 ára, hefur leikið undir stjórn Þóris Hergeirssonar í norska landsliðinu síðan 2010. Hún hefur einu sinni orðið heimsmeistari og þrisvar sinnum Evrópumeistari. Þá var hún í bronsliði Noregs á Ólympíuleikunum 2016.

Viðtalið má sjá á vef TV2 með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×