Erlent

Norskum stjórnvöldum stefnt vegna olíuleitarleyfa

Kjartan Kjartansson skrifar
Ákvæði sem var sett inn í norsku stjórnarskrána árið 2014 á að tryggja rétt fólks til heilbrigðs umhverfis.
Ákvæði sem var sett inn í norsku stjórnarskrána árið 2014 á að tryggja rétt fólks til heilbrigðs umhverfis. Vísir/AFP
Tvenn náttúruverndarsamtök hafa stefnt norsku ríkisstjórninni vegna veitingar olíuleitarleyfa í Barentshafi þrátt fyrir skuldbindinga hennar gagnvart Parísarsamkomulaginu. Stjórnin telur sig ekki brjóta gegn stjórnarskrárákvæði um vernd umhverfisins fyrir komandi kynslóðir.

Krafa Grænfriðunga og Náttúru og æsku er að tíu leitarleyfi sem ríkisstjórnin veitti í Barentshafi norðan heimskautsbaugar í fyrra verði felld úr gildi. Leyfin voru þau fyrstu sem gefin voru út í tuttugu ár en samtökin telja að þau stangist á við markmið Parísarsamkomulagsins og norsku stjórnarskrána, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Ljóst er að ef mannkynið ætlar að ná að forðast verstu afleiðingar loftslagsbreytinga þá þarf það að skilja stærstan hluta þekktra birgða jarðefnaeldsneytis eftir í jörðinni. Rök Grænfriðunga eru meðal annars þau að menn hafi þegar fundið meira af jarðefnaeldsneyti en hægt er að brenna án þess að hlýnun jarðar verði meiri en 1,5-2°C.

„Þetta snýst ekki bara um losun Noregs. Þetta snýst um ójafnvægi í kolefnisþaki heimsins og nauðsyn þess að lönd sem framleiða jarðefnaeldsneyti hætti að leita að meiri olíu þegar við höfum nú þegar fundið meira en heimurinn hefur efni á að við brennum,“ segir Truls Gulowsen, framkvæmdastjóri Grænfriðunga í Noregi.

Markmið Parísarsamkomulagsins er að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda þannig að hnattræn hlýnun verði innan við 2°C og helst innan við 1,5°C miðað við tímabilið fyrir iðnbyltingu. Kyrrahafsríki þrýstu á um metnaðarfyllra markmiðið en sum þeirra eru í hættu á að sökkva í sæ með hækkandi yfirborði sjávar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×